03.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

130. mál, tollalög

Kristinn Daníelsson:

Eg álít það ekki rétt, sem háttv. 2. kgk. þm. (E. Br.) heldur fram, að þar sem það sé skipað fyrir með lögum að hafa útlend heiti, þá megi ekki víkja frá þessu í öðrum lögum. Eg sé ekkert því til fyrirstöðu, að ekki megi setja önnur orð inn í önnur lög. Annars hefir Íslendingum ekki orðið skotaskuld úr því að búa til íslenzk heiti á því, sem þeir þurfa að halda eða þýða alþjóðleg orð á mál sitt. Annars verður víst ekki mikill árangur af því, að deilt sé um þetta atriði. Það sem fyrir mér vakir er það, að íslenzkt er íslenzkt, og því á að nota það, ef hægt er. Eg veit vel, að ýms útlend orð hafa slæðst inn í íslenzkuna hjá forfeðrum okkar. En þó að þeim yrði það óviljandi á að taka upp útlend orð, þá sé eg ekki, að við eigum vísvitandi og með ásettu ráði að taka upp útlend nöfn og heiti, ef annars er kostur. Mér finst, að við eigum að hafa íslenzk heiti á öllum hlutum, ef hægt er, að minsta kosti alt af bezt.