05.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

130. mál, tollalög

Kristinn Daníelsson:

Það er í rauninni óþarfi að tala um þessa breytingartillögu, þar sem hún er nú tekin aftur. Þó get eg ekki stilt mig um að láta þá skoðun í ljósi, að það sé mjög illa farið, ef hækka ætti toll á kaffi og sykri. Háttv. framsögum. mintist á það í umræðunum um farmgjaldsfrumvarpið, að ýmislegt væri ranglátt í því. En það er nokkru meira ranglæti í því, ef tolla ætti kaffi og sykur. Slíkt kæmi harðast niður á fátæklingunum. Eg er viss um það, að margur embættismaður í Reykjavík brúkar minna kaffi en margur þurfamaður við sjó. Eg get að vísu tekið undir það, sem háttv. þm. Ísf. (S. St.) tók fram, að það geti verið réttmætt að leggja toll á nauðsynjavörur. Landsjóður þarf að fá fé, og það getur verið hentugt og sanngjarnt að leggja toll á vörur, sem allir neyta.

Eg get ekki leitt hjá mér að minnast á það, sem háttv. 3. kgk. þm. (Aug. Fl.) drap á, að tíminn væri óhentugur til að koma á slíkri tollhækkun, sem brtill. fer fram á, fremur sakir þess, að kosningar væru í nánd. Þetta ætti ekki að koma kosningum neitt við, né þær að hafa áhrif á þetta mál. Eg væri, að minsta kosti, óhræddur við að hleypa öllum mínum skipum til brots og mundi vera með tollum, ef það væri sannfæring mín, að það væri rétt. Hitt er það, að flestir þingmálafundir eru mótfallnir hækkun á kaffi og sykri. Þess hefir alment verið krafist, að tollar yrðu lagðir á sem flestar vörur.

Þá vil eg stryka undir orð háttv. þm. Ísf. (S. St.) gegn háttv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.). Eg tek fyllilega undir það, sem hann svaraði honum um skyldur minni hlutans, um að hugsa um að sjá landinu fyrir auknum tekjum. Það er sannarlega líka skylda minni hlutans, ekki sízt þegar minni hlutinn hefir jafnmikið bolmagn og getur komið jafnmiklu til leiðar og núverandi minni hluti á þingi getur. Eg hygg, að eg geti fullvissað háttv. 5. kgk. (L. H. Bj.) um það, að ef eitthvað fer aflaga á þessu þingi, komi það ekki síður á bak flokki hans, en þeim flokki, sem eg er í. Hann sagði, að þeir, sem ykju gjöldin, ættu líka að sjá fyrir tekjuauka og benti á það, sem hefði gerst í neðri deild í gær við umræðurnar um fjárlögin, að það hefði verið tillögur meiri hlutans, er ofan á urðu og voru valdandi að útgjaldaaukanum. Eg skal nú geta þess, að eg hefi aldrei farið yfir fjárlögin til þess, að rannsaka slíkt og eg tel mér það til heiðurs fremur en hitt, að eg hefi ekki setið við pósta fjárlaganna í því skyni. En ef þetta er satt, að það hafi verið tillögur meiri hlutans, er samþyktar voru í neðri deild og juku útgjöldin, er það ekki af því, að minni hlutinn er búinn að koma sínu fram og nú er það meiri hlutinn sem tekur við? Eg veit þetta ekki með vissu, því að eg hefi ekki kynt mér breytingartillögur neðri deildar við fjárlögin í gær. Og hví vill minni hlutinn ekki leggja fram sinn skerf til þess að laga það, sem laga þarf í fjárhagnum?

Annars þykir mér þessi matningur um, hverjum tekjuhallinn sé að kenna, heldur leiðinlegur. En eg get ekki látið vera að svara, úr því að þessar brýningar komu fram.