05.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

130. mál, tollalög

Steingrímur Jónsson:

Eg þarf ekki að minnast á brtill., þar sem hún hefir verið tekin aftur, en hv. þm. Ísaf. vil eg segja það, að það eru takmörk fyrir því, hve háan toll má leggja á kaffi og sykur, ef þessar vörur eiga að vera framvegis sá góði tekjustofn fyrir landið, sem þær hafa verið. Eg segi ekki, að við séum komnir að þessu takmarki, en við erum komnir mjög nálægt því.

Hv. framsögumaður gat þess, að engin till. hefði komið frá stjórn eða þingi um tekjuauka. Þetta má til sanns vegar færa, ef undanskilið er það frumvarp, sem hér liggur fyrir, því að eg geri ráð fyrir því, að hv. þingm. geti sýnt fram á það, að farmgjaldsfrumvarpið sé ekki nothæft til tekjuauka. En eg vil benda á þá tillögu milliþinganefndarinnar í skattamálum, að aðalliðurinn í tekjuaukningu verði beinir skattar. Þessu er eg samþykkur. Hingað til hefir sú stefna ríkt að leggja aðaláherzluna á óbeina skatta, að taka fé af mönnum án þess þeir viti af. En þessi stefna er óholl. Næsta skref okkar í þessu efni ætti að vera það að koma beinu sköttunum í fast kerfi. Það er óhugsandi annað en að fá mætti talsverðan tekjuauka með því móti. Hvort menn vilja það eða ekki er auðvitað ómögulegt að segja fyrr en leitað hefir verið álits kjósenda um það. En eg get fullyrt, það að í kring um mig í Þingeyjarsýslu mundu allir vera slíkri stefnu meðmæltir. Beinir skattar eru líka nú að ryðja sér til rúms alstaðar annarsstaðar í heiminum. Þeir eru aðal nýmælið í fjárlagafrumvarpi því, er fjármálaráðherra Breta, Lloyd George bar fram í enska þinginu í fyrra. Það er vegna beinu skattanna, sem baráttan um þetta frumv. hefir verið svo ákaflega heit í Englandi. Eg skal ekki fara að blanda mér inni þann samanburð á flokkunum, sem háttvirtir þm. hafa verið að gera. En þó get eg ekki stilt mig um að svara nokkrum orðum hv. þm. V.-Ísf. Haun sagði, að minnihlutinn væri sterkur á þessu þingi og hefði komið miklu fram. Það er satt minnihlutinn er sterkari nú, en hann var á síðasta þingi og þykist eg mega fullyrða, að gott eitt hafi hlotist af, en það vil eg segja sem minnihlutamaður, að eg fann mjög til þess, hversu minnihlutinn var veikur í gærkveld í hv. Nd.