01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Ráðherra:

Það er rétt, að mál þetta er stórfelt, en sú mun vera ástæða til þess, að við Reykvíkingar tölum ekki mikið í því hér í deildinni, að það hefir verið rætt svo mjög hér, bæði í bæjarstjórn og á almennum fundum. Eg mun svo svara sem eg get fyrirspurn þeirri, sem til mín hefir verið beint í sambandi við þetta.

Ef frumvarpið verður samþykt í því formi, sem það liggur fyrir, verður landið að taka lán.

Þetta lán mun ekki ervitt að fá, þar sem lánveitandi athugar gjarnan til hvers lánið er ætlað, og vissulega er það ætlað til arðberandi þjóðþrifafyrirtækis.

Hér er um eitt hið mesta velferðarmál þess bæjarfélags og landsins í heild sinni að ræða, og á það verður litið af erlendum lánveitendum. Þessvegna verður, að minni ætlun, ekki erfitt að fá lán til þessa fyrirtækis, þótt erfitt geti orðið að fá lán til annara fyrirtækja, er síður eru arðvænleg.

Eg lít svo á, að þessi lög muni ekki verða til verulegra erfiðleika fyrir landsjóð. Auðvitað getur það á daginn komið, að torvelt verði að fá lán, og verða það þá vonbrigði fyrir Reykjavíkurbæ. —