01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Lárus H. Bjarnason:

Mér leizt stundum illa á, er eg var á ferð yfir Ísafjarðardjúp, er „hann hengdi strák í Núpinn“, sem kallað var, en sem betur fór varð oft ekki mikið úr því. Eins þótti mér leiðinlegt að finna þann kalda gust, sem lagði af háttvirtum þingmanni Ísfirðinga, en eg vona, að það verði ekki neinn fellibylur úr þeim gusti. Honum ægir fjárframlagið, en hann gætir þess naumast nægilega, að munur er á því til hvers fé er ætlað. Væri hér um eyðslufé að ræða, þá væri slíkri fjárveitingu ekki bót mælandi, en hér er um sannarlegt framfara fyrirtæki að ræða, er kastar af sér arði beint og óbeint bæði bænum og landinu til handa, og því má ekki horfa í framlagið. Að því er ábyrgðina fyrir landsfénu snertir, þá er þess að gæta, að sveitarfélög hafa ekki síður en landsfélög, expensions hæfileika, eða mátt til þess að þenja sig út eptir hæfilegum þörfum, og er því hættulausara að ábyrgjast fyrir þau en einstaklinga og venjuleg félög. Reykjavík er að vísu skuldug, það skal eg játa, en hún er ekki svo skuldug, að nein hætta sé að ábyrgjast fyrir hana.