01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Ráðherra (Kr. J.) :

Fyrstu orð ræðumannsins voru góð og blíð og var ekki nema eðlilegt, að fyrirspurn kæmi um hvernig þessu yrði komið í framkvæmd, en hin síðari orð hans voru kaldari og gustmeiri. Þingmanninum hlýtur að vera kunnugt, hvernig á þetta mál hefir verið litið um fjölda ára, því málið er æfa gamalt.

Höfn hér er ekki eingöngu fyrir Reykjavíkurbæ og Seltjarnarnesið, heldur allt landið, sérstaklega fyrir alt Suðurland.

Það má heita, að hér sé einasta ísfrí höfn á öllu landinu, það er að segja höfn, sem jafnan er laus við ís allan árshringinn. —

Hvervetna annarstaðar er litið svo á, að eitt hið allra þýðingarmesta mál sé að hafa góðar hafnir svo að verzlunin sé gerð trygg.

Hvervetna hlaupa ríkin undir bagga með bæjunum, er þeir koma upp dýrum höfnum hjá sér.

Í Danmörku hefir ríkið lagt mikið til hafnargerða og svo er einnig í Svíþjóð. Í fyrra lagði ríkissjóður þar 1600 þús. krónur til tiltölulega lítillar hafnar.

(Sig. Stef.: En hvað eru ríkissjóðstekjurnar ?)

Ríkissjóðstekjurnar eru miklar þar, en skuldir eru líka miklar á ríkinu.

Hér er ekki farið inn á neina óvenjulega braut, enn annað mál er það, hvort þingið treystir sér til að sinna málinu og líta á þörf Reykjavíkurbæjar og landsins; en eg vona samt, að svo verði, þar sem svo mikið er í húfi. Það er ekki nema hálft annað ár síðan eg gekk ofan að höfninni hér einn sólskinsdag. Það var eftir austanstorm mikinn, og hafði skip rekið vestur á höfnina. Þar láu þá öll fiskiskipin líklega milli 40 og 50 í þvögu, og eg gekk heim með þeirri sannfæringu, að ekkert þeirra yrði heilt næsta dag, ef hann hvessti aftur á landsunnan. Það hefði orðið tap uppá nær miljón króna.

Skaparinn sneri þessu þó á aðra leið, því að um kveldið kom dúna logn, en 3—4 daga var verið að greiða úr skipaflækjunni; svo voru akkeri og festar þvælt saman.

Þessu má annars búast við á hverju vori hér, meðan svona stendur og eru mörg hundruð þúsund króna í vetur á höfninni nær því hvern dag, eftir að vertíð byrjar á vetrin, og þetta er þó eina ísfría höfnin á landinu að heita má.

Það mun ekki líða á löngu, ef þetta verk kemst í framkvæmd, að í ljós komi hve stórfelda þýðingu það hefir fyrir alt landið. Verzlunin hlýtur að komast í betra lag en nú er. Hér koma upp stórsöluverzlanir og er það til hinna mestu bóta, þar sem það mun gjöra kaupmönnum út um landið svo hægt fyrir að nálgast vörurnar héðan, í staðinn fyrir að sækja þær til útlanda.

Eg ætlast ekki til, að deildin skuli líta svo á, að eg mæli fram úr öllu hófi með þessu máli eða á þann veg, að eg ætlist til, að deildin gleipi við frumvarpinu athugunarlaust. Eg segi mitt álit um málið, og eg gjöri hvorki að ráða deildinni til að samþykkja frv. eða hafna því, en vona að hún athugi málið vel, og vil þá vona, að hún taki nokkuð tillit til þess, sem eg hefi sagt um það.