18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Lárus H. Bjarnason:

Hv. framsögumaður gat þess, að einn nefndarmaður hefði mælt með hærri fjárveitingu úr landssjóði eitt skifti fyrir öll, en farið er fram á í frv., og á hann þar eflaust við mig. Hann gat þess einnig, að ástæðan væri sú að eg væri í vafa um, hvort fyrirtækið kæmist á með þessu fjárframlagi. Það er rétt að eg fór fram á í nefndinni, að fjárframlag landssjóðs yrði hækkað, en það var ekki af því, að eg kviði því, að bæjarstjórnin myndi ekki ráðast í fyrirtækið, að einhverju leyti að öðrum kosti, heldur af hinu, að lengur hlýtur að standa á því, að verkið komist í framkvæmd ef tillag úr landssjóði er svo lágt sem það er nú í frv.

Hjá hv. þm. Ísafj. sprakk nú blaðran, ef svo mætti að orði kveða. Í nefndinni var á honum að skilja, að hann ætlaði sér að eins að koma með br.till. við frv, en nú lýsti hann yfir því í lok ræðu sinnar, að hann gæti ekki greitt atkv. með frv., síst ef br.till. hans yrði ekki samþykt. Eg mun að eins víkja að br.till. hans, því að við þá menn er ekki að ræða, sem vilja drepa þetta mál með öllu, af hvaða ástæðum sem það er. Eg skal þó taka það fram að það er ekki rétt að vera altaf að riða fjárlögunum. Til framlags til svona fyrirtækis á landssjóður að taka lán. Þetta fyrirtæki er arðberandi á alt annan hátt en vegabætur. Vegir eru að vísu til mikils hagræðis fyrir landið en þeir gefa engan beinan arð. En fyrirtæki eins og hafnargerðir draga útlent „kapital“ inn í landið með auknum viðskiftum, auka skipagjöld, tolla o. fl. Það er fleira tekjur en beinir skattar. Mér þótti leitt að heyra hv. þm. Ísafj. misskilja þetta. Annars ætlaði eg aðeins að tala um br.till. hans, og verð eg að segja, að fullkomið nýjabragð er að henni. Landssjóður hefir áður gengið í ábyrgð fyrir slík fyrirtæki. Hann hefir tekist á hendur ábyrgð fyrir 500 þúsund króna láni til vatnsveitu Reykjavíkur, 150 þús. kr. láni til Heilsuhælisins á Vífilsstöðum, ýmsum lánum til sveitafélaga og einu láni til Seyðisfjarðarkaupstaðar, en engin þessara lánsábyrgða er trygt með veði. Yfirleitt hefir landssjóður aldrei heimtað veð, þegar opinberar stofnanir eða sveitarfélög hafa átt í hlut. Þessi till. hv. þm. Ísafj. er því fullkomið nýmæli, og auk þess algjörlega óþarft nýmæli. Eða hefir hv. þm. ekki lesið 9. gr. frv., sem banna bæjarstjórn að selja eða veðsetja fasteignir hafnarsjóðs án samþykkis stjórnarráðs. Sömuleiðis má benda honum á 19. gr. tilsk. frá 20. apríl 1872, sem meinar bæjarstjórninni að selja eða veðsetja nokkra fasteign kaupstaðarins, smáa eða stóra, án samþykkis landshöfðingja, eða stjórnar nú. Hv. þm. mun nú ef til vill segja, að vel geti farið svo að stjórnin veiti slíkt veðsetningarleyfi, án þess að skeyta um ábyrgð landssjóðs, ef hún er svo innrætt. Slíkt má auðvitað alt af segja stjórnin getur jafnvel brotið stjórnarskrána, ef henni sýnist svo, því að „quis custodiet eustodes ipsos“, hver er að gæta varðanna sjálfra? Það er ómögulegt að finna upp nokkurt eftirlit með þeim hæsta. En engin góð og samviskusöm stjórn mundi veita samþykki sitt til að veðsetja höfnina, ef hún áliti að það gæti bakað landssjóði tjón. Sömuleiðis vil eg benda hv. þm. á það, að landssjóður getur, ef illa fer, gengið að öllum hafnarvirkjum, án þess þau séu veðsett honum. Ef skuldunautur minn borgar ekki skuld sína á réttum tíma, þá get eg farið í mál við hann og fengið hann dæmdan til þess; fjárdómur er fenginn yfir honum, þá get eg gert fjárnám í eignum hans, og legst þá dómsveð á þær allar. Auk þess væri þetta veð landssjóði gersamlega ónýtt, þó hann fengi það. Því að hver mundi bjóða í það? Jú, eg er ekki í neinum vafa um að fá mætti boð í höfnina, ef selja mætti hana útlendingum, eða helzt útlendum ríkjum, Englendingum, Frökkum eða Þjóðverjum, en það mun þó varla vera meining hv. þm. Ísafj. En enginn innlendur maður eða félag gæti keypt hana. Loks mætti gefa upp verðið, þó það væri áskilið hér. Með þessari br. till. hv. þm. vinnst því alls ekkert, enda get eg ekki varist þeirri hugsun, að hún kunni að vera fram komin, til þess eins að þvæla það aftur ofan í n. d., því að ástæður þær, er hann hefir borið fram eru alls ónýtar. Þetta hefi eg sagt honum áður. Og ekki verður br.till. hans síður til að draga úr þessum grun. Eða hvað getur hv. þm. gengið til að stinga upp á jafn herfilega ómerkilegri breytingu eins og að bæta ákveðna greininum við síðasta orðið í 2. gr.? Þessi br.till. á sýnilega að eins að vera varatillaga, ef sú fyrri yrði feld; en því hefir hv. þm. líklega búist við, því svo mikla firru fer hún fram á, eins og eg hefi nú leitt rök að.

Hv. þm. Ísafj. gat þess, að ekki hefði verið bent á, hvaðan landssjóður ætti að taka peningana til þess framlags, sem farið er fram á úr honum. Mitt álit er það, að til þessa fyrirtækis væri sjálfsagt að taka lán, jafnvel þó við hefðum vasana fulla af peningum. Og þó lánið væri tekið alt í einu, þá yrðu útgjöld landssjóðs með t. d. 6% árlega, ekki nema 24 þús. kr. á ári. En nú býst eg við því, að bæjarstjórnin mundi ekki leggja út í að byggja alla höfnina í einu. Eg geri ráð fyrir, að fyrst mundi verða gerður garðurinn út frá Battaríinu og bryggjurnar m. m. Kostnaður við það mundi ekki fara fram úr 800 þús. kr. Fyrir það verð fengist viðunanleg höfn í bráð. Þá kæmi í landssjóðs hlut að eins ¼ af 800 þús. kr. eða 200 þús. kr. Með 6% rentu og afborgun yrði það að eins 12 þús. kr. árlega. Og hvaða stund væri landssjóður að fá inn þá upphæð? Eða veit ekki hv. þm. Ísafj. að tollgjöld og skipagjöld renna í landssjóð? Eg man það, að eg barðist lengi fyrir því að koma á bryggjunni í Stykkishólmi. Þá voru allir þeir sem lifðu af uppskipun þar á móti bryggjugerðinni vegna þess, að þeir myndu missa atvinnu við það. Nú kom eg í Hólminn fyrir skömmu og þá voru sömu mennirnir tvíelfdir með bryggjuni, af því að þeir höfðu miklu meiri atvinnu eftir en áður, vörumagnið þar hafði aukist að miklum mun. Það er skammsýni að sjá það ekki, að höfnin er ekki að eins bygð fyrir Revkjavík, heldur fyrir alt landið; því að það sem er gróði fyrir höfuðstaðinn er líka gróði fyrir landið. Eg vona að, hv. deild samþ. þetta frv. óbreytt, þó að hv. þm. Ísafj. sem eg annars einna sízt vil sjá í mótstöðumannaliði, hafi mælt í móti því, Það er engin ástæða til að óttast ábyrgðina fyrir Reykjavík, því að bærinn mundi ganga mjög nærri sér, áður en hann léti taka höfnina af sér.