18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Steingrímnr Jónsson:

Eg vildi með örfáum orðum minnast á þetta mál, sem er svo mikið stórmál, að því er snertir fjárhag landsins. Eg drap á það við 1. umræðu, að eg áliti þessa hafnargerð lífsspursmál fyrir Reykjavík og mjög þýðingarmikið fyrir suður og vesturhluta landsins og að eg áliti sjálfsagt fyrir fjárveitingarvaldið að gera sit ítrasta til að styrkja og styðja þetta mál, og það því fremur sem hér er að ræða um höfuðstaðinn. En eg geri minna úr því, sem margir tala um, að hér muni verða miðstöð allrar verzlunar landsins. Það hygg eg muni verða erfitt, sérstaklega að því er kemur til Norðurlandsins og Austfjarða. Eg álít að ekki sé vert fyrir landið að veita meira til fyrirtækisins en farið er fram á í frumvarpinu 400 þús. kr. enda er það álitleg upphæð. Ef hún væri hærri mætti undir eins segja, að verið væri frekara að ginna Reykjavík út í eitthvað, sem enginn hagnaður væri af. Þessi fjárveiting er í samræmi við margar aðrar styrkveitingar þingsins, t. d. veitinguna til bryggju í Stykkishólmi, sem mun hafa verið ¼ hluti af bryggjukostnaðinum eða þar fyrir neðan. Eg mun greiða frumvarpinu atkvæði mitt eins og það er óbreytt. Eg sé ekki ástæðu til að taka upp í það brtill. háttv. þm. Ísafjarðarkaupst. Eg geng út frá því sem vísu, að um leið og stjórnin gengur í ábyrgð fyrir Reykjavík sjái hún um, að hafnarmannvirkin verði ekki veðsett öðrum. Það væri prettvísi af bænum að veðsetja öðrum þau. En hitt skiftir minnu, hvort þau eru veðsett landsjóði eða ekki, að enginn annar hafi veðrétt í þeim.

Í sambandi við þetta mál hafa menn komið fram að ýmsar fjárhagshugleiðingar, eins og ekki er nema eðlilegt. Það er sjálfsagt, að ef þarf að greiða þessar 400 þús. kr. út úr landsjóðnum á næstu árum, þá verður að taka lán til þess, og við það álít eg að ekki sé hikandi. En ef það dregst lengur, mun þess ef til vill ekki þörf, fjárhagurinn er ekki í því ólagi. Háttv. framsögum. (K. D.) kom fram með hugleiðingar, sem ekki voru réttar eða vel athugaðar. Það er að vissu leyti rétt, að fjáraukalögin 1908—09 standa ekki í föstu reikningslegu sambandi við fjárlögin 1912—13. En hér höfum við á blaði fyrir framan okkur, að landsreikninganefndin telur vanta að færa til ýmsar fjárhæðir á fjáraukalögin. Útgjöldin á fjáraukalögunum 1908—09. hafa hækkað um 62 þús. kr. En hvaða áhrif hafa svo þessar 62 þús. kr.? Því er fljótsvarað. Þessar 62 þús. kr., ásamt með þeim 80 þús. kr., sem fyrir voru á fjáraukalögunum 1908—09, hafa þau áhrif, að peningahagur landsjóðs er eins og hann er. Það hefir verið minst hér áður á peningahag landsjóðs; hann er nú eftir því sem eg hefi spurt mig fyrir um á þá leið, að sem stendur skuldar hann ríkissjóði Danmerkur 450 þús. kr. eða nær ½ miljón. En hér heima mun peningaforðinn nema um 250 þús. kr., það eru þá 200 þús. kr. eða því sem næst, sem vantar á til þess, að landsjóður geti svarað skuldinni út. Þrátt fyrir þetta verður þó ekki sagt, að fjárhagurinn hafi versnað, því að undanfarin ár hefir mikið fé verið borgað til stórfyrirtækja og lánað út, svo það er bundið. Fjáraukalögin 1908 —’09 koma því ónotalega við.

Fjáraukalögin fyrir 1910—’11 standa aftur á móti í beinu sambandi við fjárlögin 1912—’13. Á þeim eru veittar stórupphæðir til fyrirtækja, sem eiga að vinnast í sumar 1911, og er alveg undir geðþótta þingsins, hvort veittar eru í ár eða þær dregnar til hinna reglulegu fjárlaga. Þingið 1909 ber ekki ábyrgðina á þeim gjöldum heldur þingið 1911. En af þessu, að þetta fé er veitt á fjáraukalögunum, leiðir það, að tekjuhallinn er í raun og veru meiri en þær 281 kr., sem gert er ráð fyrir í fjárl. frumv. neðri deildar. Þar við bætist ofdjörf áætlun um eina tekjugreinina, áfengistollinn, sem mun nema um 100—110 þús. kr., yrði hann þá 390 þús. kr. Svo koma fjáraukalögin 1910—’11 með 140 þús. kr. útgjöld, það mun því ekki fjarri lagi, að tekjuhallinn verði 480—500 þús. kr. Þetta er sá rétti „status“ landsjóðs. Eg áleit rétt, að minnast á þetta, þegar þingið er að taka þunga kvöð á landsjóðinn. Hinsvegar álít eg þetta mál svo mikils vert, að ekki sé horfandi í að hlaupa undir bagga með bænum, því án hafnar á hann enga framtíð.