18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Hjörleifsson:

Eg ætla mér ekki að fara að deila um fjárhaginn, það er auðvitað gott að fara varlega í þeim efnum, en ofmikið má af öllu gera og eins um það. Annars vil eg taka undir að ýmsu með háttv. 5. kgkj. (L. H. B.) um þetta mál. Eg er ekki í neinum vafa um það, að það mundi auka tekjur landsjóðs verulega, ef höfn væri gerð hér í Reykjavík og ætti það að styrkja alla til að ganga að frumvarpinu. Og mér finnst við því óhræddari getum gefið atkvæði með frumvarpinu, þegar þess er gætt, að jafnframt því sem hér er komið upp höfn, þá vex eign landsjóðs. Eg á hér við lóð landssjóðs, Arnarhólslóðina, sem hlýtur að hækka mikið í verði, þegar höfnin er komin. Mér skildist á háttv. 5. kgkj. (L. H. B.) að það yrði byrjað á hafnargerðum þeim megin, eða frá „batteríinu“. Eg skil áætlun Smith’s hafnarverkfræðings svo, að ekki sé gert ráð fyrir, að þar verði byrjað. Eg hefi séð 2 áætlanir um hafnargerðina, aðra meiri og aðra minni. Í minni áætluninni er gert ráð fyrir því, að hlaðinn sé gerður á Grandanum og svo skjólgarður út frá Örfirisey; og að þetta væri fullsæmileg byrjun. Eg skal ekkert um það þræta, eg met mest ummæli þeirra manna, sem á því hafa bezt vit, verkfræðinganna. En það er auðsætt, að þó alt fyrirtækið komi ekki til framkvæmda í einu, þá getur samt nokkur hluti þess komið að liði.

Ráðist bærinn í hið minna, þá yrði framlag landsjóðs og minna. Og þó að bærinn sjái sér ekki fært að ráðast í neitt, þá er það þarft verk, að bærinn undirbúi sig sem bezt undir það.

Af þessum ástæðum sem og mörgum fleiri er eg með þessu máli. Það mundi sjálfsagt æra óstöðugan að telja upp allar þær ástæður, sem gera það æskilegt, að höfn komi hér í Reykjavík.