14.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

32. mál, stækkun verslunarlóðarinnar í Gerðum

Kristján Jónsson:

Það er ákaflega undarleg braut, er þingið er komið inn á í þessum löggildingum hafna og verzlunarlóða. Það hefir smátt og smátt komist inn á þessa braut á undanförnum þingum. Það er mjög stór strandlengja, er hér er farið fram á að gera að löggiltri höfn og verzlunarlóð. Ef frumvarpið verður að lögum, má alveg eins löggilda alla strandlengjuna kringum alt Ísland, þar sem bátum má koma að landi. Það vill svo til, að eg er nákunnugur á þessu svæði, sem nú er farið fram á að löggilda; eg hefi verið þar mjög oft. Það nær yfir allan svokallaðan Garð, frá Útskálum og inn að Rafnkelsstaðabergi. Ef við fáum marga svona stóra kaupstaði, verður alt lögreglueftirlit ómögulegt. Það væri þá miklu þægilegra og brotaminna. að löggilda alla strandlengjuna frá Garðsskaga og hingað inn til Reykjavíkur. Og þar sem háttv. þm. Vest.-Ísf. mintist á löggilding svæðisins frá Keflavík og inn að Vogastapa, tel eg að það hafi verið mjög rangt, að slík lög voru samþykkt. —