30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

93. mál, vélgæsla á íslenskum gufuskipum

Augúst Flygenring:

Eg læt mér nægja fyrst um sinn, að skírskota til þess, er eg sagði við fyrstu umræðu þessa máls, og vil að eins víkja með fáum orðum að breytingartillögum nefndarinnar. Það er ekki gert ráð fyrir því í frumv. hvar menn eigi sérstaklega kost á að læra vélsmíði; en að sjálfsögðu þurfa menn þó að læra eitthvað því líkt með járnsmíðinni. Aðalbreytingartill. nefndarinnar er því þess efnis að heimila landstjórninni rétt til þess, að benda á tiltekin verkstæði, þar sem þessi stétt manna skuli læra járnsmíði. Gerum vér ráð fyrir, að það verði þau ein, sem tíðum hafa með höndum aðgerð á vélum og hafa fullkomnust verkfæri til þess konar smíða.

Í öllum nágranna löndum eru sérstakir staðir, þar sem menn geta lært hið verklega í þessu efni. Menn þurfa að læra járnsmíði á þeim stöðum, sem einmitt þeir hlutir eru búnir til eða komið í aðgerð, sem þörf getur verið að vélgæzlumennirnir geti lagfært ef skemmast, eða jafnvel búið til, og það þarf að gerast með þeim tækjum, sem þeir hafa við að búa á skipunum.

Slík verkstæði eru ekki víða til hér á landi, þar sem aðgerð á ýmiskonar vélahlutum eða ný smíði einstakra hluta frá vélum fer fram. En í Reykjavík mætti þó benda á 2 eða 3 verkstæði sem einkar hentug fyrir vélgæzlumenn og mundu þau veita að miklu leyti sömu æfingu í ýmsum smíðum og fæst í útlöndum.

Þó þessi verkstæði séu ekki rekin í eins stórum stíl og erlendis gerist, þar sem þau að mestu leyti vinna með handafli, þá hafa þau samt miklu betri verkfæri en gerast á gufuskipum.

Vona eg að viðaukatill. þessi verði samþykt og landstjórnin á sínum tíma sjái sér fært að útvega eitt eða tvö verkstæði, er gætu tekið á móti piltum til iðnnáms, og sem hún þess vegna mætti benda þeim á, er þessa atvinnu ætluðu að læra.

Önnur brtill. setur sjálfsagt tímatakmark fyrir þá, sem gæta véla í landi.

Þriðja breytingartill. er að eins orðabreyting á 6. gr. frumvarpsins og þarf ekki um hana að ræða.

Annars vona eg að frumvarpinu verði tekið vel, það er mikil þörf á því.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að lögin öðlist gildi frá næsta nýári. Spursmál gæti verið um það hvort ekki væri réttara að þau kæmu fyrst í gildi eftir h. u. b. 3 ár, eða að þeim tíma liðnum sem nauðsynlegur er til þessa náms, fyrir þá sem nú byrja að læra. Áður en málið verður til 3. umr. skal eg hugsa um þetta atriði nánar.