17.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

45. mál, stofnun lagaskóla á Íslandi

Steingrímur Jónsson:

Eg var á móti því við 1. umr. þessa máls, að skipuð væri nefnd til að athuga það, ekki samt af því, að eg væri ánægður með frumv., heldur af hinu, að mér fanst það þannig lagað, að ekki væri ástæða til að skipa nefnd. Frumvarpið var svo ljóst og einfalt. Það hafa verið skipaðar svo margar nefndir hér í deildinni, að mér þótti rétt að víkja frá þeirri reglu.

Eg hefi nú ásamt öðrum hv. þingdeildarmanni komið fram með br.till. við frumv., sem gengur í þá átt að færa það í hið sama horf og það var í, þegar það kom fyrst fram í hv. neðri deild, það sem sé að stytta aftur tímann úr 3 árum ofan í 1½ ár. Og er það af þeim ástæðum, er nú skal greina. Eg hygg að það hafi verið hugsun allra manna með lögunum 1907 um stofnun lagaskóla, að hlynna sem mest og bezt að þeirri stofnun, þegar hún væri komin á, og umfram alt að hún hefði einkarétt til að veita fræðslu í íslenzkum lögum, sem þarf til embætta hér á landi. Þessi hugsun kom fram í lögunum í ákvæðinu um 3 ára frestinn — nokkuð harkalega ef til vill — sem gefinn er stúdentum við háskólann, er voru að nema lög til að ljúka námi sínu. Frá þessari stefnu sé eg enga ástæðu til að víkja nú. Lagaskólinn hefir farið vel á stað og eru líkindi til, að hann verði oss bæði til sóma og gagns. Mér finst eins og eg sagði, að það sé ekki rétt að víkja meir frá þessari reglu en brýn nauðsyn og sanngirni mælir með. Og þarf þá ekki að taka tillit til annara nemenda en þeirra, sem farnir voru til háskólans áður en lögin um lagaskólann gengu í gildi eða áður en hann tók til starfa haustið 1908. Þessi frestur sem hér er farið fram á til viðbótar nær ekki til annara stúdenta en þeirra, sem útskrifuðust um vorið 1907 eða þar fyrir framan, Verði fresturinn framlengdur til 1. apríl 1913 þá hafa þeir stúdentar, sem fóru til háskólans 1907 nægan tíma til að ljúka námi sínu. Eg get upplýst, að það er ekki nema einn stúdent frá þeim tíma, sem nú er við laganám þar. Þeir voru upphaflega þrír, en eftir því sem jafnaldrar þeirra hafa skýrt mér frá — sjálfur veit eg ekki um það — er ekki nema einn eftir. Hinir hafa snúist á aðra vegu með nám sitt. Enginn stúdent er eldri en frá 1905 og einn frá 1906. Af þessum ástæðum vonast eg til, að br.till. mín verði samþykt og að frumvarpið nái fram að ganga, það er ekki nema réttlætiskrafa eins, tveggja eða þriggja manna.