01.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

70. mál, forgangsréttur kandídata

Lárus H. Bjarnason:

Fyrst allir aðrir þegja, eins og þar stendur, þá stend eg upp, þó eg sé ekki undirbúinn undir að halda „framsöguræðu“ um málið, eins og hv. þm. Ak. virðist ætla að altaf beri að halda er mál kemur fyrst fyrir deild. Eg ætlaði að eins að stinga upp á nefnd. En til þess að friða þá nafnana og færa orðum mínum stað um að ekki sé úr leið að kjósa nefnd í málið, þá skal eg benda á 4. gr. frv. þar sem segir, að allir þeir, er ljúka prófi frá Kaupmannahafnarháskóla „5 árum eftir að háskólinn tekur til starfa“ skuli embættisgengir hér. Hér munu orðin vera alveg gagnstæð meiningunni. Hér ætti að standa „innan 5 ára frá því er háskólinn tekur til starfa“! — Þetta væri í rauninni næg ástæða til að athuga málið í nefnd, en auk þess er fleira athugavert við frumv. meðal annars orðtækið og vil eg því stinga upp á að þriggja manna nefnd verði kosin í málið.

Frumv. vísað til 2. umr. í e. hl.