22.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

83. mál, kosningaréttur og kjörgengi

Sigurður Hjörleifsson:

Það var ætlun mín að leggja til að þetta frumv. yrði felt hér í deildinni, og eg hefi litlu við að bæta þær röksemdir, sem háttv. 2. þm. Skagf. færði fyrir því í niðurlagi ræðu sinnar. Eg vil benda á það, að svo mikið er nú orðið um skyldur manna til þess að vinna kauplaust í almennings þarfir, að það má heita hrein plága fyrir marga menn, þá sem færastir eru álitnir til að hafa slík störf með höndum. Ef því verður nú bætt við að konur skuli einnig skyldar til að taka að sér þess konar störf alveg eins og karlmenn, þá hygg eg, að þessar borgaralegu skyldur muni hvíla enn þyngra á fólki en hingað til hefir verið, og jafnvel verða hrein vandræði fyrir sumar fjölskyldur, því það vill oft verða svo, að opinberum störfum er hlaðið á þá, sem hæfastir þykja, en ekki gætt að því að skifta störfunum sanngjarnlega niður. Enn er þess að gæta, að það hefir komið í ljós við kosningar til bæjarstjórnar, að sumar konur hafa komist í bæjarstjórn að eins vegna þess að þær voru konur. Það hefir verið kappkostað, að útvega þeim atkvæði einmitt vegna þess að þær voru konur, en ekki af því að væru álitnar öðrum fremur hæfar til starfsins. Á meðan svona stendur, sé eg ekki ástæðu til að samþykkja frumvarp eins og þetta sem liggur hér fyrir. Það er réttast að þetta jafni sig af sjálfu sér smátt og smátt, en eg tel ekki rétt, að löggjafarvaldið fari að grípa hér fram í á þann veg, að gera öllum konum að skyldu að taka á móti kosningu. Þess vegna legg eg á móti því, að frumvarpið verði samþykt.