25.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

89. mál, bygging jarða og ábúð

Sigurður Stefánsson:

Eins og háttv. þingdeildarmenn muna var líkt frumvarp þessu á ferðinni hér á síðasta þingi. Það var þá sett í nefnd, en hún gat ekki sint því, og ekki samið nefndarálit. Hér er um laganýmæli að ræða, sem vert er að sé athugað vel, því að þótt lögin um bygging, ábúð og úttekt jarða frá 12. jan. 1884 hafi verið góð lög á sínum tíma, þá er því svo háttað um þau, eins og öll önnur gömul lög, að þau þurfa breytinga og endurbóta við, einkum þegar þess er gætt að ákvæði þeirra laga þóttu í fyrstu ekki sem sanngjarnlegust að, því er kom til viðskifta landsdrottins og leiguliða. Þetta frumvarp er meðal annars um, hvernig skuli að fara, þegar leiguliði vill gera jarðabætur, sem ekki eru áskildar. Það var orðin full þörf á því, að breytt yrði til í þessu efni og finst mér þetta mjög aðgengileg breyting. Það eru líka í því nokkur fleiri atriði en voru í frumvarpinu, sem lá fyrir á síðasta þingi, t. d. um jarðarhús og húsagerðarkostnað, sem eru þess verð, að þau séu athuguð vel; það eitt, þó ekki væri annað, þykir mér næg ástæða til að setja frumvarpið í nefnd. Eg vil því leyfa mér að stinga upp á 3 manna nefnd, að umræðu lokinni; ekki þó af því, að eg vilji ekki að þetta frumvarp komist ekki út úr þinginu, síður en svo, heldur af því, að þetta er svo mikilsvert atriði og snertir svo mjög viðskifti og rétt leiguliða gagnvart landsdrottni.