01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Gunnar Ólafsson:

Eg ætla ekki að þreyta háttv. deild á langri ræðu að þessu sinni. Eg ætla að minnast örlítið á loftskeytin. Eg hefi áður minst á þau, og það er ekkert nýtt um þau að segja. Það er ekki hægt að búast við nýjum ástæðum í málinu. Það sem háttv. framsögum. (Stgr. J.) sagði um þetta efni var öfgakent og út í loftið.

(Stefán Stefánsson: Það átti nú líka við, þegar um þetta er að ræða. Hlátur.)

Já, það á heima þar. Hann (framsögum.) hélt því fram að nýju stöðvarnar í Vík og Hornafirði mundu kosta 40—50 þús. kr. í stað þess, að nú er gert til þeirra 20 þús kr. Eg get vitaskuld ekki fyllilega dæmt um þetta, en það getur hinn háttv. framsögum. ekki heldur með nokkurri vissu. En það er fjarstæða að segja, að þær verði helmingi dýrari en þeir menn, sem hér hafa bezt vit á, áætla. Þetta held eg sé nokkuð loftkent hjá háttv. framsögum. Sama er að segja um fullyrðingar háttv. framsögum. um kostnað við starfrækslu loftskeyta. Eg veit ekki, hvaðan honum kemur sú þekking, að hann muni nema um 15 þús. kr. á ári, nema ef flokkur hans ætlar að launa þeim sérstaklega vel er að loftskeytunum vinnur.

(Lárus H Bjarnason: Þekkir þingmaðurinn nokkuð þetta mál, sem hann er að tala um ?)

Eg er ef til vill ekki eins lærður og háttv. 5. kgkj. þm. (L. H. B.), en eg á ekki að ganga upp til prófs hjá honum. En honum er sæmra að yfirheyra þá og kenna þeim sæmilega, sem hann á að kenna, en ekki mér.

(Lárus H. Bjarnason: Það er ekki sitjandi undir þessu.)

Aðalatriðið í þessu máli er það, að það er hætt við, að sími slitni, en það gera loftskeytin ekki. Þetta loftskeytasamband verður og landinu í heild sinni miklu ódýrara, heldur en ef leggja ætti þráð yfir alt það svæði sem hér er um að ræða.

Háttv. framsögum. (Stgr. J.) mintist á mótmælaskjal Vestmanneyinga. Hann virtist vilja taka mikið tillit til þess. En hér til er að svara, að hver þingmaður er eingöngu bundinn við sannfæring sína. Sannfæringin á ekki að koma til þingmanna á þann hátt, að þeir fái hana með undirskriftum utan úr einhverju landshorni. Menn ættu líka að athuga, hvernig svona löguð skjöl eru til komin. Einn eða tveir menn ganga um með þau í laumi og fara með þau eins og mannsmorð. Þess er vandlega gætt, að ekkert komist upp fyr en eftir á. Svona skjöl hafa oft komið upp áður, og hafa sáralitla þýðingu, og þingmenn eiga ekki að vera að vitna í þau né byggja mikið á þeim. Aðrir eyjabúar segja, sem satt er, að allur fjöldinn hafi enga hugmynd um, hvað hann skrifar undir, og að hægt hefði verið með sömu aðferð á sama tíma eða dálitlu á undan að ná í jafnmargar undirskriftir með loftskeytunum. Það er með öðrum orðum, að fólk hefir ekkert vit á því, sem það skrifar undir. Það má gylla flest svo fyrir því, að það verður því ákaflega fylgjandi.

Hæstv. ráðherra skaut því inn í ræðu háttv. framsögumanns, þegar hann sagði, að Vestmanneyingar hefðu mótmælt loftskeytasambandi, að eins mundi ástatt um Vestur-Skaftfellinga. Mér ber, ef til vill, ekki að þræta um þetta né andmæla því, en mér er ekki kunnugt um, að neinar raddir hafi komið fram þaðan gegn því. Eg hefi ekki heyrt um slíkt og held, að það sé ekki mikið um slíkt enn þá, hvað sem kann að verða.

Þar sem hæstv. ráðherra gat þess, að engin framkvæmd yrði á þessum lið frumvarpsins í ár, þótt hann yrði að lögum, þá kemur mér þetta dálitið undarlega fyrir og þykir það vera vitni þess, að honum og sumum háttv. þingmönnum sé ekki eins mikið áhugamál að koma eyjunum í fréttasamband við land og þeir láta, er þeir vilja ekki hlýðnast því sem þingið vill.

(Stefán Stefánsson: Það þarf þó peninga).

Það getur verið, að hinn hæstv. ráðherra hafi ekki athugað þetta vel enn þá, en eg trúi ekki öðru, en að hann geri sitt ítrasta til að koma þessu til framkvæmda, ef það verður samþykt, og eg þykist vita, að hann reyni að koma þessu eins fljótt til framkvæmda og auðið er og það nú þegar á þessu ári. Mér er það kunnugt, að Marconifélagið býðst til að koma loftskeytastöðvum upp, þótt það fái ekki borgunina fvrr en á næsta ári.

Atkvæði eru víst ráðin í þessu máli og báðir aðilar þykjast víst hafa nokkuð til síns máls. Það er gamall fordómur hér á þingi gegn loftskeytum frá því á þingi 1905, og þeir sem voru mótfallnir þeim þá vilja eyða þeim nú.