01.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögum. Steingr. Jónsson:

Eg vil gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Vestur-Skaftf., þó að það sé nú ef til vill óþarft, því að hann færði engin rök fyrir máli sínu. Hann sagði, að eg hefði ekki fært fram neinar ástæður fyrir því, að þessar 3 loftskeytastöðvar fyrir austan mundu verða dýrari en 20 þús. kr. Eg færði einmitt rök að því; jafnvel smá loftskeytatæki á skipum eru dýrari en sem því svarar. Hv. þm. sagði, að okkur vantaði þekkingu til þess að geta dæmt um, hve mikið stöðvarnar mundu kosta. Alveg rétt. En hefir hann þá slíka þekkingu sjálfur? Nei, sá maður er ekki til hér, sem geti sagt um það af nokkurri þekkingu, að það sé hægt að byggja þessar 3 stöðvar fyrir 20 þús. krónur. — Aftur á móti eru góð gögn fyrir hendi, að því er starfrækslukostnaðinn snertir. Starfræksla þessara 3 stöðva hlýtur að kosta um 3,000 kr. minst. Eg mintist á mótmæli Vestmanneyinga vegna þess að einmitt þeir, sem eiga að hafa gagn af loftskeytunum, vilja ekki hafa þau. Því að Skaftfellingar hafa ekkert gagn af þessum loftskeytastöðvum. Þeir geta ekki haft alment neitt gagn af því, þó að loftskeytastöðvar séu á þessum tveim stöðum, Vík og Hornafirði. Nei, það eru Vestmanneyingar einir, sem gætu haft nokkurt gagn af loftskeytastöð, því að þar hagar svo til, að fjöldi manna býr á einum bletti. En einmitt þeir mótmæla. — Eg get ekkert sagt um það, hvernig undirskriftirnar eru fengnar, en mér finst, að það sitji sízt á hv. þm. Vestur- Skaftf., að vera með getsakir í þá átt, að þær muni vera illa fengnar. Það er alt af hægt að slá slíku fram, og það hefði verið viðkunnanlegra að hv. þm. hefði fært einhverjar sönnur á mál sitt.

Loks skal eg minnast sérstaklega á það sem hv. þm. talaði um í lok ræðu sinnar, að við vildum ekki koma Vestmannaeyjum í símasamband. Voru það ekki við, sem börðumst fyrir því á síðasta þingi, að sími yrði lagður til Vestmannaeyja? Og var það ekki einmitt hv. þm. Vestur-Skaftf., sem drap það? Það er honum að kenna, að Vestm. eru ekki komnar í símasamband, og hans flokki, en ekki okkur.

Þessu um fordóma frá 1905 skulum við sleppa. Þessi 6 ár, sem eru liðin síðan, hafa sýnt, að það var ekki af fordómum, sem við vildum heldur fá síma en loftskeyti, því að það hefir sýnt sig, að loftskeytin, sem áttu að vera orðin nothæf þá, eru ekki orðin nothæf enn þá, 6 árum síðar.