30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

Flutningsmaður (Sig. Hjörleifsson):

Ef til vill er hinni háttv. deild kunnugt um það, að varðskipið „Íslands Falk“ hefir verið sumarmánuðina, eða að minsta kosti mestan hluta þeirra, fyrir norðan land, sérstaklega í því skyni að líta eftir síldveiðaskipunum þar. En sú hefir orðið reynslan á, að gæzla varðskipsins hefir ekki þótt koma að fullum notum. Það er álitið þar nyrðra, að töluvert hafi verið um lagabrot, þrátt fyrir það þótt varðskipið hafi verið þar, enda viðurkent af skipstjórum skipsins, og telja þeir, að ekki sé hægt að halda uppi nægilegri löggæzlu með þeim lagaákvæðum, sem nú gilda. Skipstjórarnir hafa tvívegis farið þess á leit í skýrslu til stjórnarráðsins, að breytingar væru gjörðar á lögunum í þessu efni.

Þetta litla frumvarp, sem fyrir liggur fer einmitt fram á að slík breyting sé gjörð. Hér er verið að ákveða, að útlend síldveiðaskip megi ekki vítalaust hittast í landhelgi, nema það hafi nætur í búlka og nótabáta uppi á venjulegum stað. Ástæðurnar fyrir þessu eru þær að varðskipið hefir oft rekið sig á síldveiðaskip innan landhelgi með báta úti, þannig, að grunur hefir leikið á að tilgangurinn hafi verið sá, að veiða í landhelgi, eða að þau væru búin að veiða þar, en ekki hægt að taka skipin föst. Tveir skipstjórar varðskipsins hafa farið fram á þessa breytingu og þess vegna er þetta frumvarp komið fram; og kröfur þeirra falla saman við það, sem landsmönnum sjálfum hentar bezt. Það getur verið breytilegt, hvað mikla þýðingu það hefir, að banna útlendingum síldveiði í landhelgi. Síldin er stundum utan við landhelgislínuna, og stundum fyrir innan. Þegar hún er fyrir innan getur það verið afar þýðingarmikið fyrir innlenda veiði, að landhelgin sé nákvæmlega vernduð. Frumvarpið er stutt og einfalt, svo eg sé ekki ástæðu til að tala langt mál með því. Mönnum kann ef til vill að virðast þetta nokkuð ströng ákvæði, en það verður ekki hjá öllu komist, og menn verða að sætta sig við þau.