30.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

117. mál, fiskveiðar útlendra við Ísland

Ráðherra (Kr. J.):

Eg held að það sé réttara að setja nefnd í málið. Það eru til lík ákvæði um botnvörpuskipið, sem þetta frumvarp mun sniðið eftir. Þegar þau ákvæði voru sett, var þeim ekki vel tekið af útlendum þjóðum. Það urðu þá talsverðar bréfaskriftir milli ensku stjórnarinnar og stjórnarráðsins hér, út af þeim. Í þessu frumvarpi stendur: „Nú hittist útlent síldveiðaskip í landhelgi“. En það er enginn minsti vafi á því, að eftir alþjóðareglu, þá hafa útlendingar rétt til að fara um landhelgina, og það var einmitt þetta, sem enska stjórnin lagði mikla áherzlu á. Og eins og menn vita, þá er ekki við lambið að leika sér, þar sem enska stjórnin er. Hér er líka verið að skipa fyrir um, að þessir menn skuli haga sínum eigin áhöldum á vissan hátt á sínum eigin skipum. Mér finst rétt að íhuga vandlega, hvort brýn ástæða sé til að setja slík fyrirmæli. Háttv flutningsmenn hafa skírskotað til tillagna formannanna á „Íslands Falk“; þær skýrslur munu væntanlega liggja í stjórnarráðinu, og er þá gott, að fá þær til athugunar. Mér þykir málið dálítið viðsjárvert og því rétt að vísa því til nefndar. Hinsvegar er frumvarpið svo stutt, að nefndin mundi ekki þurfa til þess marga daga að íhuga það. Hér í deildinni eru 1 eða 2 nefndir, sem vísa mætti málinu til.