01.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Það kann vel að vera, að breyting þessi raski því símakerfi, sem símastjórnin hefir gert, en það gerir ekki til, þó að það kerfi raskist, ef annað betra kemur í staðinn. Mín sannfæring er, að þetta sé betra og ódýrara. Þetta samband fæst fyrir 75 þúsundir, þar sem hið annað samband fæst ekki fyrir minna en 160 þúsundir, og þá eftir að leggja línu fyrir marga tugi þúsunda austur með ströndinni. Þennan kostnað hefi eg áður sagt í tölum í hv. neðri deild og vil ekki tefja tíma þingsins með því að rekja það aftur. Félag það sem sendi mann hingað er mikið félag og maðurinn er mér nákunnugur, þar sem eg varð honum samferða hingað til landsins, og hefir hann sagt mér ítarlega, hvað þetta kostaði.

Símastjórinn er ekki fróðari öðrum mönnum um loftskeyti. Menn, sem standa honum jafnfætis að þekkingu í eðlisfræði og rafmagnsfræði, geta sett sig inn í það engu síður en hann. Ráðherra gat þess, að fé væri ekki fyrir hendi á þessu ári; það er ekki heldur nein þörf á því, þar sem félagið hefir boðist til að setja stöðvarnar í ár, án þess að þær væru borgaðar fyr en að ári.

(Ráðherra: Eigum við að skulda útlendu félagi?)

Stjórnin gerði að sjálfsögðu samninga við félagið og getur staðið í þeim, að ekki sé borgað fyr en stöðvarnar eru komnar upp og reyndar um tíma og félagið hefir bundið enda á loforð sitt að kenna mönnum hér loftskeytastarf. Hér er því ekki um það að ræða að við skuldum félaginu, þó því verði ekki greitt fyr en að ári.

Eg vil ekki gera lítið úr vilja Vestmanneyinga í þessu efni, en heldur en að þeir fái ekkert samband, hvorki í lofti eða legi, sem annars er fyrirsjáanlegt, vil eg að þeir hafi þetta samband.

Ef sambandið verður ekki sett, má búast við að þeir komi sjálfir upp símasambandi, sem landið verður svo að kaupa af þeim dýru verði.

Við höfum dæmin fyrir okkur nú, þar sem hlutafélag hér í bænum er að selja símkerfi bæjarins með töluverðum ágóða.

Að hér sé brotið í bág við vilja almennings get ég ekki sætt mig við. Almenningur býr víðar en í Vestmannaeyjum. Í Skaftafellssýslu vilja menn allshugarfegnir taka við loftskeytastöðvum og fá þannig hraðskeytasamband fyr en ella. Því að þeir treysta því ekki, og geta ekki treyst því, að þangað verði lagður sími.

Þá ætla ég að minnast á breytingartillögu. sem ég ber fram, að orðinu „Marconi“ verði bætt inn í tillöguna. Það er vegna þess, að Marconifélagið hefir undirbúið þetta mál og býðst til þess að setja stöðvarnar á stofn nú þegar á næsta sumri, þótt samningar fari svo, að félagið fái ekki borgunina fyr enn stöðvarnar hafa staðið sinn tíma og félagið hefir kent mönnum starfræksluna. Í þriðja lagi er þess að gæta, að annaðhvort verðum við að taka Marconikerfi eða eitthvert annað gneistakerfi, því að loftskeytastöðvar skipa eru flestar eða allar svo, að þær taka ekki við skeytum frá ljósbogakerfinu. Fjórða ástæðan er sú, að nú hefir hér í deildinni verið samþykt að setja á stofn loftskeytastöð, er næði til Vesturheims. En þar á Marconifélagið stöðvar á Hellulandi, í Glacebay, (þ, e. Isvík) og víðar, og óðar en við höfum sett á stofn stöð í Reykjavík, erum við komnir í samband við Vesturheim, því að þessar stöðvar eru nægilega sterkar til að ná hingað. Auk þess eru Marconi-stöðvar á Englandi, sem vér gætum vel haft samband við. Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að við verðum að nota Marconikerfið. Vér getum ekki tekið neitt óreynt kerfi hér, því að vér þurfum að komast í samband við umheiminn undir eins með þeim stöðvum, sem vér reisum. Eg vona því, að hv. þ. samþykki þessa breytingartill. mína.

Ennfremur ætla eg að minnast á aðra breytingartill., sem hér er til umræðu á þingskjali 947, um að forseta sameinaðs alþ. verði veittar 1200 kr. styrkur til þess að sækja 1000 ára þjóðhátíð Normandis. Eg hefi hér fyrir framan mig bréf, sem hv. forseta hefir verið skrifað um þetta. Öllum er kunn frændsemi vor við þessa þjóð, og þarf eg ekkert að fara út í þá sálma. Nú hefir forseta alþingis verið boðið að taka þátt í hátíðahaldi í Parísarborg þ. 10.—11. júnímán. á þessu sumri. Bréfinu fylgir skrá yfir, hvað gera skuli. Og í niðurlagi bréfsins er forseti alþingis beðinn að gera bjóðendum þann heiður, að vera við hátíðahaldið. „Sæti mun geymt yður til handa við þá ýmsu liði hátíðarinnar,“ segir í bréfinu, og að síðustu kveðja. Bréfið er stílað til forseta sam. alþ. og um leið til allra alþingismanna í því trausti, að þeir muni biðja forseta sinn um að fara, og verða við hátíðina fyrir hönd alþ. og landsins. Eg sé ekki, að alþingi geti sóma síns vegna látið hjá líða að veita fé til fararinnar og sýna þar með frændrækni þjóðarinnar og það, að hún setji ekki fyrir sig smávægileg útgjöld í þessu skyni.