31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

123. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Flutningsm. (Sigurður Hjörleifsson):

Þetta litla frumv. er framkomið fyrir símtal, sem bæjarfógetinn á Akureyri átti við mig á dögunum; hann fór fram á það við mig, að eg bæri þetta frumv. fram hér á þinginu, og gerði hann það skv. samþ. bæjarstjórnarinnar á Akureyri. Frumv. er í 2 gr. að eins. Fyrri greinin fer fram á það, að sjö menn skuli framvegis eiga sæti í niðurjöfnunarnefnd kaupstaðarins í stað þess að hingað til hafa þeir að eins verið fimm. Seinni greinin mælir svo fyrir, að endurskoðunarmenn reikninga bæjarins skuli vera tveir — hingað til hefir að eins verið einn endurskoðunarmaður — og að þeir skuli skyldir að endurskoða alla reikninga bæjarins. Eg skal geta þess, að eg fékk í gær símskeyti frá bæjarfógeta, og skal lesa það upp með leyfi hæstv. forseta. Það er svohljóðandi:

„Bæjarstjórnin óskar breytt bæjarstjórnarlögum 1883, þannig, að endurskoðendur séu tveir skyldir að endurskoða alla reikninga sjóða og stofnana kaupstaðnum tilheyrandi, auk bæjarsjóðsniðurjöfnun framkvæmi sjö manna nefnd.

Bæjarfógeti.“

Þetta símskeyti er hv, deildarmönnum trygging fyrir því, að frumv. kemur fram í samræmi við óskir bæjarstjórnarinnar á Akureyri. Það tekur fram nákvæmlega sömu atriðin, sem í frumv. eru. Eg lít svo á, að frumv. þetta sé svo einfalt og auðskilið, að ekki sé þörf á að skipa nefnd til að íhuga það. Hinsvegar gæti þó komið til tals að orða öðruvísi 2. gr. þess, nefnilega að endurskoðunarmönnum skuli skylt að „endurskoða alla reikninga sjóða og stofnana kaupsstaðnum viðvíkjandi“. Slíkt orðalag mundi taka af öll tvímæli um verksvið endurskoðunarmannanna. Hinn núverandi endurskoðunarmaður hefir að eins talið sér skylt að endurskoða reikninga bæjarsjóðs, en ekki reikninga annara sjóða, sem bærinn á, svo sem hafnarsjóðsins. En endurskoðun á öllum reikningum bæjarins er mjög mikið verk og einum manni ofvaxið, er engin borgun er greidd fyrir það, og er því rétt að endurskoðendur séu tveir.