01.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Steingr. Jónsson:

Af því að eg hafði framsögu nefndarinnar um aukafjárlögin efri deild, þykir mér skylt að fara nokkrum orðum um breytingartillögur þær, sem hér hafa komið fram, og skal eg þá fyrst minnast á breytingartillögurnar á þingskjali 915. Það er að vísu svo, að þetta loftskeytamál er orðið þaulrætt og ekki miklu við að bæta. En það á vel við að gera sameinuðu þingi nokkra grein fyrir ástæðum þeim, sem vöktu fyrir okkur í E. d., þegar málinu var ráðið til lykta eins og þar var gert.

Eg skal fyrst tala um fyrri lið till. á 915 um loftskeytasamband milli Reykjav. og Vestmannaeyja. Fyrst er vert að gæta að því, hvað þetta kostar í samanburði við síma. Loftskeyti kosta 40 þús. en símasamband, eftir áætlun landssímastjórans, kostar 37 þús. kr. En af þeim 37 þús. kr. er ekki ástæða til að gera ráð fyrir að landsjóður leggi til nema 30 þús. Þetta tek eg fram af því, að því hefir verið mótmælt af einum hv. þm. E. d. Eg held, að það séu miklar líkur til þess, að Vestmannaeyingar taki sjálfir þátt í kostnaðinum á móti landssjóði. Á þingi 1909 lá fyrir tilboð frá þeim um að þeir legði til 8 þús. kr. og þar sem þeir enn í vetur hafa sótt það fast að fá símasamband, er óhætt að gera ráð fyrir, að þeir vilji nokkuð til vinna. Enda er jafnvel sagt, að þeir vilji leggja símann á eigin kostnað.

Þetta eru að vísu munnlegar sagnir, en engin ástæða til að rengja þær. Kostnaður við það að leggja síma er því ómótmælanlega 10 þús. kr. minni en við það að reisa loftskeytastöðvar. En þetta er ekki aðalatriði málsins. Það sem mestu varðar er hitt, hvað gagnið er mikið og hversu hár reksturskostnaður verður. Maður getur gert sér ljósa grein fyrir gagninu af síma, því að menn vita, hvað mikinn arð símar gefa á líkum stöðum, t. d. Patreksfirði og víðar, þar sem þilskip ná til síma. Þar er niðurstaðan alstaðar, að símarnir gefa mikinn arð. Landsímastjórinn, sem er þessu kunnugastur, fullyrðir, að Vestmannaeyjasíminn mundi gefa af sér 10% - 12% arð af stofnfé því sem landssjóður leggur til, ef Vestmanneyingar sjálfir leggja til 7 þús. Þessu verður ekki mótmælt með rökum, því að öll gögn sanna, að arðurinn verður að minsta kosti svona mikill.

Samanburður við aðrar símalínur, t. d. Patreksfj.síma, Húsavíkursíma, o. fl., bendir í þá átt að arðurinn sé jafnvel helzt til oflágt áætlaður, því að það er ekki tekið neitt tillit til þess, að skipa aðsókn til Vestmannaeyja mundi að líkindum aukast, þegar síminn væri lagður. — Þá er að líta á ársarðinn af loftskeytunum. Eg hefi að vísu engin gögn fyrir því, hvað tekjurnar mundu verða miklar, nema álit landssímastjóra. Hann er sá eini, sem hefir reynt að gera sér í hugarlund, hvað loftskeyti mundu gefa af sér. Hann hyggur, að tekjur verði í hæsta lagi 2500 kr. á ári. Náttúrlega er engin vissa fyrir þessu, en enginn hefir getað bent á hærri tölu, t. d. hefir umboðsmaður Marconifél. ekki treyst sér til að gera neina áætlun um það. Aftur á móti er reksturskostnaður við loftskeytastöðvarnar áætlaðar 6000 kr. Símastjóri hélt að draga mætti nokkuð úr kostnaðinum í Reykjavík, ef stöðin væri í sambandi við landsímastöðvarnar. En allar líkur eru til að reksturskostnaður sé helzt til lágt áætlaður. Í því sambandi má benda á það, að reksturskostnaður við loftskeytastöðina í Röst í Noregi varð 1909 3900 krónur fyrir utan húsaleigu og boðborð, sem sveitafélagið þar lagði til. Minni en 5500 til 6000 kr. getur reksturskostnaðurinn fráleitt orðið og þá vantar að minsta kosti um 3000 kr. til þess að tekjurnar hrökkvi fyrir reksturskostnaði. Þetta er því auðsætt mál. Annað gefur 3000 kr. vexti af stofnfénu, hitt gefur enga vexti og vantar 3000 kr. fyrir reksturskostnaði. Svona hlýtur það að verða, meðan siglingar ekki breytast algjörlega, svo að hver skúta hefir loftskeytaáhöld. En það er svo fjarri því að

svo sé enn, því eg hefi ekki heyrt, að nokkurt skip við Íslandsstrendur hafi loftskeytaáhöld, nema ef til vill fáeinir þýzkir botnvörpungar auðvitað að undanskildum skemtiskipunum. Eg hygg, að það þurfi ekki meira að segja um þetta mál. Eg hygg, að það sé orðið ljóst, hvað vakir fyrir okkur, sem feldum þessa tillögu í E.d. En svo er viðbótin, 20 þús. kr. fjárveitingin til loftskeytastöðva undir Eyjafjöllum í Vík í Mýrdal og í Hornafirði. Mér er ekki ljóst, hvaða ástæður eru færðar fyrir þessari fjárveitingu. En eitt vita allir, að það liggur ekki fyrir neitt tilboð um byggingu þessara stöðva. Um stöðvarnar hér og í Vestmannaeyjum eru aftur á móti ítarleg tilboð, og er gengið út frá einu þeirra. En um um hinar 3 stöðvarnar er ekki eitt einasta tilboð, og ekkert, sem bendir í þá átt, að hægt sé að byggja þær fyrir svona litla upphæð. Eg álít þessa fjárveitingu algerlega út í bláinn. Eg gæti trúað því að byggja mæti stöð á Seljalandi, sem gæti náð sambandi við Vestmannaeyjar, fyrir 0—10 þús kr. En mér er óskiljanlegt, að stöðvarnar í Vík og Hornafirði gætu orðið billegri hvor um sig en Vestmannaeyjastöðin. Sé þetta rétt, þá kostuðu þessar 3 stöðvar 50 þús. kr. Þessi áætlun er ef til vill ekki alveg rétt, en hún er áreiðanlega nær því sanna en 20 þús kr., eins og hér er gert ráð fyrir.

En þetta er ekki það athugaverðasta. Hitt er athugaverðara, að reksturskostnaður við þessar stöðvar hlýtur að verða hinn sami og við stöðina í Vestmannaeyjum. Þessar stöðvar hafa sárlítið að gera, en reksturskostnaðurinn er jafn. Það þarf sérfróðan mann við hverja stöð, og meira þarf heldur ekki í Vestmannaeyjum. Og ef stöðvarnar eru viðlíka stórar, eins og ég geri ráð fyrir að verði að vera, þá er einnig reksturskostnaðurinn sá sami, mótorar jafn-sterkir o. s. frv., með öðrum orðum, það má gera ráð fyrir 9 þús. kr. árlegum reksturskostnaðarauka, ef þessar 3 stöðvar verða bygðar. Stofnkostnaður loftskeytastöðvanna í heild sinni yrði þá 90 þús. kr. og reksturskostnaðurinn allur 15 þús. kr. á ári. Þetta hygg ég næst því sanna.

En hvað er þá í aðra hönd? Það hefir verið bent á 2500 kr. tekjur af Vestmannaeyjasambandinu, í hæsta lagi. En tekjur af stöðvunum austur frá hlytu að verða afarlitlar, fyrst og fremst af því, að þar er minna brúk fyrir skeytasamband, og í öðru lagi af því að sambandið er óhentugt. Það hefir verið sagt að Vestur-Skaftafellingar séu ekki afar-hrifnir af því að eiga þetta samband í vændum og vilja heldur bíða eftir síma. En þá er talað um Austur-Skaftfellinga, að þeir mundu allshugar fegnir vilja loftskeyti. Það kann að vera um Hornfirðinga sjálfa, en það eru varla aðrir, því að eins og allir vita hafa loftskeyti þann galla, að þau geta svo óvíða komið við, þar sem aftur á móti má setja símastöðvar svo að segja á hverjum bæ, þar sem síminn liggur um héruðin. Þess vegna getur gagnið aldrei orðið eins alment af loftskeytatækjum. — Það má gera ráð fyrir, að tekjur af þessum 3 stöðvum verði um 500 kr. með tekjunum af Vestmannaeyjasambandinu; yrðu þá allar tekjurnar 3000 kr. En reksturskostnaðurinn verður 15000 kr. Hvað er svo fengið með þessu góða loftskeytasambandi samanborið við síma?

Það hefir verið bent á það, að einn af ókostunum við loftskeytasamband væri það, að með því væri raskað því kerfi, sem áður er lagt með þeim tilgangi að hafa talstöðvar sem víðast að hægt er. Og þetta kerfi er á þá leið, að sambandið sé óslitið frá Vík og vestur og norður um land hringinn í kring til Hornafjarðar. Á þennan hátt verða allar sýslur landsins í símasambandi, og allar í talsímasambandi. Þeir sem halda fram loftskeytum segja nú, að þetta mundi verða óhæfilega dýrt. En það er ekki eins dýrt og búast mætti við í fljótu bragði. Sími til Vestmannaeyja kostar 37000 kr. Sími frá Garðsauka til Víkur 33000 kr. En af þessari upphæð sparast aftur nokkuð við það, að símarnir verða samferða nokkuð af leiðinni, líklega 3—4 þús. kr., eftir því hvort þeir verða samferða í Eystri-Landeyjar eða að Seljalandi. Þessi kostnaður verður þá 37+30 þús. eða kringum 67 þús. kr. Nú geri eg ráð fyrir að það verði óhjákvæmilegt, hvort sem loftskeytatæki verða sett á stofn eða ekki, að framlengja símann frá Fáskrúðsfirði til Djúpavogs. Hvað verður þá dýrt að leggja símann þaðan og til Hornafjarðar? Landsímastjóri áætlar þann kostnað 40 þús. kr. Þá er allur kostnaðurinn 40+67 þús. eða 107 þúsund krónur. Af þessu má gera ráð fyrir að sýslusjóðir leggi til:

Vestmannaeyjar .................................. 7000 kr.

Skaftafellssýsla 6000 kr.

Suður-Múlasýslu .......................... 4—6000 kr •

Þá eru eftir kringum 90 þús. kr„ sem landssjóður leggur til. Þetta er alt og sumt. Af þessum símalínum má gera ráð fyrir að Vestm.eyjasíminn gefi 3000 til 3500 kr. arð, ef til vill meira. Og það eru líkur til að hinar línurnar geri talsvert meira en borga reksturskostnaðinn, því sambandið við Vík mundi að líkindum gefa af sér nokkuð upp í vöxtu af stofnkostnaði, og Hornafjarðarsíminn gerði áreiðanlega betur en borga reksturskostnað. Ef maður nú gerir ráð fyrir, að þessar línur gefi af sér 1000 kr. fram yfir reksturskostnað, þá yrðu tekjurnar af öllum þessum símum til samans 4000 kr. til 4500 kr. fram yfir reksturskostnað. Með öðrum orðum, allar þessar símalínur til samans gæfu góða vöxtu af stofnkostnaðinum, sem eg áætlaði um 107 þús. kr., þar af 90 þús. úr landssjóði. Það liggur því í augum uppi, að þetta er sjálfsagt að gera, það svarar vel kostnaði, gefur góða vöxtu af fénu, sem í það er lagt, og hlýtur auk þess að verða til mikillar blessunar fyrir héruðin, sem þessar símalínur eiga að liggja um.

Af þessum ástæðum blandaðist okkur í efri deild ekki hugur um að velja heldur þessa leið. Það vakti fyrir okkur, að þetta ætti að gera sem fyrst og um fram alt ekki eyða kröftunum til loftskeytasambands á meðan þetta er ókomið í framkvæmd.

En þá segja sumir, að landið ætti þó að koma sér upp einhverri loftskeytastöð. Og það álít eg vera rétt, en af alt öðrum ástæðum, nfl. til þess að koma á sambandi við önnur lönd sem þrautasambandi, ef sæsíminn til útlanda kynni að bila. Og hins vegar til þess að geta bent útlendingum á, að hér sé loftskeytastöð til, sem þeir geti komist í samband við, ef þeir vilja koma upp loftskeytatækjum á skipum sínum. En slík stöð ætti hvergi annarstaðar að vera en í Reykjavík og yrði að vera svo sterk, að hún næði til annara landa. Ef fé væri fyrir hendi, gæti eg verið með slíkri stöð, þrátt fyrir það, að eg býst ekki við að hún geti borgað einu sinni reksturskostnaðinn fyrst um sinn.

Þetta er í raun og veru stefna meiri hl. þingmanna, sem sést á því, að í Nd. var við meðferð símalaganna samþykt að leggja loftskeytastöð, sem náð gæti sambandi við Ameríku. En sá er gallinn á þessari Ameríkustöð, að enginn lifandi maður hefir nokkra hugmynd um kostnaðinn, og auk þess finst mér sú leiðin vera óþarfa krókaleið. Því ekki eins að setja sig í samband við Noreg. Nú er verið að byggja stöð rétt við Bergen, og við þá stöð, er við á þann hátt kæmumst í samband við, mundi kostnaðurinn líklega ekki verða meiri en 60,000 krónur. Einnig má geta þess að nú um þessar mundir er talað um að setja upp stöð á Grænlandi, og mér er yfir höfuð að tala harla óskiljanlegt, hvernig menn hafa farið að framfylgja þessu máli á þinginu með eins miklu kappi og gert hefir verið. Þá vildi eg minnast á aðra till., sem fram hefir komið, sem sé þá till., að taka upp aftur fjárveitingu til kvennaskólans á Blönduósi. Það hefir áður í nefndaráliti við bæði fjáraukalög og fjárlög verið sýnt fram á með ljósum rökum, að ekki sé rétt að veita skóla þessum jafn-háan styrk og farið hefir verið fram á, þar sem hann óneitanlega er sýsluskóli, en alls ekki landsskóli. Þessvegna verð eg að mæla með því að styrkurinn verði feldur niður. Þá er till. á þingskj. 947 um ferðastyrk til forseta sameinaðs þings til Rúðuborgar og sömuleiðis til magisters Guðm. Finnbogasonar. Eg álít að fyrri liður tillögunnar geti alls ekki komið hér til umr., þar sem hann aldrei hefir legið fyrir hv. Efri deild.