18.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

15. mál, verslunarbækur

Lárus H. Bjarnason:

Eg fæ ekki varist að geta þess, að frágangur á sumum frumvörpum, sem koma hingað frá háttv. neðri deild er þannig, að hann sýnir að ofmikil rækt hefir ekki verið við þau lögð. Hér um dagin kom þaðan frumvarp, sem „sló því föstu“, sem var alveg gagnstætt því, sem það ætlaði að „sláfast“. Það var frumvarpið um forgangsrétt kandídata frá háskólanum íslenzka til embætta. Svona slæmar villur eru að vísu ekki á því frumvarpi, er hér liggur fyrir, en það ber þó merki þess, að á því hafa verið hafðar of hraðar hendur. Eg vil einkum benda á að víða er þar vitnað til tiltekinna greina, en ekki sagt, hver lögin séu. Eg held nú, að landið mundi komast vel af, þótt þetta frumvarp yrði ekki að lögum. En það mun ekki þykja kurteisi að skera það niður nú við 1. umræðu, en það er svo gallað, að það er nauðsynlegt að skipa nefnd í málið til að íhuga þá galla, sem eru bæði á efni þess og formi.