02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

15. mál, verslunarbækur

Framsögum. Gunnar Ólafsson:

Eins og getið er um í þessu stutta nefndaráliti hefir nefndin ekki getað felt sig við frumvarpið eins og það er komið frá neðri deild og hefir því komið með nokkrar breytingartillögur. Eftir frumvarpinu er ætlast til að lögin verði feld saman við lög 30. júlí 1909, en eftir því sem nefndin lítur á er frv. ekki svo úr garði gert, að það geti í raun og veru fallið inn í þau lög. Þessvegna vill nefndin gera breytingar á frv. sem miða að því að frv. falli betur inn í meginmál nefndra laga. Eg sé ekki ástæðu til að fara út í hverja einstaka breytingartillögu, því að þær skýrast allar af sjálfu sér, þegar þær eru bornar saman við lögin frá 1909. Um efnisbreytingu á frumvarpinu er ekki að ræða, nema hvað nefndin vill draga úr sektarákvæðinu í 3. gr. frv. Þar stendur, að ef öll bókfærslan er í þeirri óreiðu, að hún geti bersýnilega ekki náð tilgangi sínum, varðar það sektum eða fangelsi og eftir atvikum missi verzlunarleyfis. Nefndinni þótti fangelsisrefsing altof hörð refsing, og vill því fella hana niður. Hér er ekki um svo mikið brot að ræða, að slík refsing geti átt við, og nefndin er því mótfallin að setja strangari refsiákvæði en þörf gerist. Þetta er aðalbreytingin. — 7. breytingartillagan getur ef til vill valdið miskilningi. Nefndin ætlast til að orðin „viðskifti eins og þau eru skráð í frumbókina eða“ verði feld inn í 3. gr. l. 1909 á milli orðanna „vita“ og „samanlagðar“ í þriðju málsgrein greinarinnar, — þannig, að öll málsgreinin kemur til með að hljóða þannig:

„Í höfuðbók skal rita viðskiftin eins og þau eru skráð í frumbókina eða samanlagðar upphæðir þær í krónum og aurum, er útilátnar eða innlagðar vörur nema í hvert sinn samkvæmt frumbókinni“.

Þetta skilst vel, þegar það er borið saman við lögin, en ef orðalagið á breytt. þykir ekki nógu skýrt, má laga það við 3. umræðu málsins.

Eg held að frv. þetta sé til bóta og geri lögin frá 1909 ljósari, svo að hægra verði að fylgja þeim, eins og þau eru nú. Vona eg því að háttv. deild leyfi frv. framgang.