01.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Hálfdán Guðjónsson:

Eg hafði ekki ætlað að taka til máls, þó að ég sé meðflutningsmaður að einni breytingartillögu, sem hér liggur fyrir á þskj. 929, um byggingarstyrk til kvennaskólans á Blönduósi. Ástæðan til þess, að eg bjóst ekki við að taka til máls í þetta sinn, var sú, að þessi fjárveiting hefir verið svo rækilega rökstudd áður. En ummæli hv. 4. kk. þms. neyða mig til að segja fáein orð. Sá kafli af ræðu hans, sem snerist um þessa fjárveitingu, var stuttur, en því einkennilegra var það, hve miklu ranghermi hann gat komið fyrir í þessum ræðukafla. Hann sagði, að þessi skóli hefði aldrei verið annað en sýsluskóli fyrir Húnavatnssýslu. Þetta er furðudjarft ranghermi, þar sem það er margsannað, að skólann hafa sótt stúlkur úr öllum sýslum landsins. Hitt er satt, að skólinn hefir ávalt verið sýsluskóli Húnavatnssýslu í þeim skilningi, að Húnavatnssýslan er eina sýslan, sem hefir styrkt hann og haldið honum uppi allmörg árin hin síðustu. En það var ekki þetta, sem lá í orðum hv. 4. kk. þingmanns Eg skil ekki að hv. þm. vilji láta sýsluna gjalda þess, að hún ein hefir styrkt þennan skóla, enda þótt hann hafi verið sóttur víðsvegar að úr öllu landinu.

Eg skal einnig benda á það, að þessi skóli hefir verið og verður líklega einnig hér eftir langódýrasta menningarstofnun fyrir konur hér á landi. Það er eini skólinn, sem fátækum stúlkum er fært að sækja. Það munar mjög miklu, hvað þessi skóli er billegri en t. d. kvennaskólinn í Reykjavík. Og eg leyfi mér að fullyrða, að skólinn hafi komið að miklu gagni; með því að eg hefi verið prófdómari við skólann, hlýt eg að vera því kunnugri en þeir sem aldrei hafa komið nálægt honum.

Það er hart að sumir hv. þingmenn skuli róa að því öllum árum að eyðileggja þennan skóla, samtímis því sem þingið er að veita kvenfólki þau réttindi, sem mikil ábyrgð fylgir og mikla menningu þarf til að geta notað eins og vera ber, kosningarrétt til alþingis. Einmitt samtímis þessu eru þeir að reyna að eyðileggja þann eina skóla á landinu, sem fátækum stúlkum er fært að leita sér mentunar á.

Hafi margt í þessari löngu tölu hv. 4. kk. þm. verið jafnáreiðanlegt og ummæli hans um þessa stofnun, þá verð eg að segja, að það er ekki mikið byggjandi á þeim mörgu tölum, sem hann færði fram máli sínu til stuðnings.

Þegar hér var komið umræðunum, kom fram áskorun til forseta um að slíta umræðum þegar í stað. Var sú tillaga borin undir atkvæði og samþykt í e hlj.