26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

43. mál, læknaskipun

Lárus H. Bjarnason:

Eg ætlaði ekki að standa upp, en af því að hv. þm. Akureyrar bar það fram sem ástæðu fyrir nefndarskipun, að skaðabótakrafa á hendur landssjóði mundi að öllum líkindum koma fram frá 2 læknum þar eystra, ef frv. yrði samþykt, þá skal eg láta í ljósi þá skoðun mína, að þetta nær engri átt. Það má slá þessu fram, að mennirnir muni fara í skaðabótamál við landssjóð, því það má fara í mál út úr öllum þremlinum, en eg er viss um, að enginn dómstóll mundi dæma þeim neinar skaðabætur. Enda kvað vera til yfirlýsing frá báðum læknunum, um að þeir mundu sætta sig við þessa breytingu og ekki gera neina skaðabótakröfu. En þeirrar yfirlýsingar þarf ekki með, því að samskonar fyrirv. og hv. þm. gat um, úr læknalögunum frá 1899, er einmitt í lögum um skipun læknishéraða 1907, 3. gr.; og er það eitt fyrir sig næg sönnun þess, að læknar þessir geta enga kröfu gert til skaðabóta. Bætur þær sem læknirinn á Blönduósi fékk, voru alt annars eðlis. Þar stóð svo á, að læknirinn hafði bygt steinhús á leyfðu læknissetrinu, í því trausti, að hann fengi að sitja þar kyr áfram. En svo fékk hann skipun um að flytja sig að Blönduósi, og mæltist þá til þess að þingið bætti sér að nokkru þann kostnað, er hann hafði haft af húsbyggingunni. Þar var þannig alt öðru máli að gegna.