26.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

43. mál, læknaskipun

Sigurður Hjörleifsson:

Ræða háttv. 5. kgk. þm. sannfærði mig ekki. Hafi læknisembættið á Eskifirði, með þeim ummerkjum sem það nú hefir, verið veitt áður en lögin um skipun læknishéraða voru sett, þá eru miklar líkur til þess, að læknirinn í því héraði hafi fullan rétt til skaðabóta. Annað mál er það ef fram hefir komið yfirlýsing frá honum, um að hann muni ekki gera kröfu til skaðabóta. Þó sýnir sú yfirlýsing, að hann telur sig hafa rétt til þeirra, og mér hefir hann tjáð, að hann mundi krefjast bóta. Eg sé ekki að neinn skaði geti hlotist af því, þó að málið sé athugað í nefnd, og vil leggja með því.