11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ráðherrann (Kristján Jónsson):

Eg skal ekki vera langorður. Það voru að eins 2—3 athugasemdir, sem eg vildi gera, áður en málið fer í nefnd og það eru líkar athugasemdir og eg gerði í Neðri deild. Það getur raunar verið, að það sé fullkominn óþarfi og að þingdeildarmenn hafi gert sér grein fyrir því, sem eg ætlaði að benda á, en mér finst samt réttara að taka það fram sérstaklega. Það, sem eg fyrst vildi benda á, er það, að tekjuhallinn er eftir frumvarpinu nú 281 þúsund krónur. Ennfremur skal eg benda á það, að ein af allra verulegustu tekjugreinum frumvarpsins er án efa sett of hátt. Það er áfengistollurinn, sem eg á við. Eftir það að eg hefi borið mig saman við þá menn í stjórnarráðinu, sem bezta þekkingu hafa á þessu máli, hefi eg komist að þeirri niðurstöðu, að hann muni vera settur nálægt því 110 þúsund kr. of hátt. Þá hafa og nú fyrir skömmu verið afgreidd aukafjárlög héðan úr deildinni, þar sem bætt er við 102 þús. kr. útgj. fyrir landsjóð — og þau útgj. verða að líkindum hækkuð enn. Hér höfum vér því fast að 500 þús. kr. tekjuhalla eða nákvæmara tiltekið c 493 þús.kr. tekjuhalla. Ennfremur vil eg benda á það, að ýms lög eru nú afgreidd frá þinginu, sem hafa kostnað í för með sér. Peningaforði landssjóðs er nú ekki nema um 250 þús. kr Hann hefir að vísu aukist eitthvað þessa dagana. Áður kom það sjaldan fyrir, að hann væri lægri en 400—600 þús. kr. Skuld landssjóðs við ríkisféhirzluna mun nú vera um 470 þús. kr. Peningaforði landssjóðs er því ekki nægilegur til að greiða þessa skuld eina, sem heimta má af oss, hvenær sem vill.

Að því er snertir lánveitingaheimildirnar úr viðlagasjóði, þá vil eg leyfa mér að taka það fram, eins og eg gjörði í háttv. neðri deild, svo að menn ekki vaði í neinum reyk um það efni, að eg get ekki séð að nokkuð verði lánað úr viðlagasjóði, hvorki nú eða næstu ár. Það er búið að lofa einu láni, háttv. þm. Akureyrar veit um það, en það mun verða full erfitt að greiða það af hendi og ekki til að tala um að frekara verði lánað. Viðlagasjóður er nú eftir því sem skrifstofustjórinn á 3. skrifstofu hefir skýrt mér frá, um 1750 þús. kr. Einn háttv. þm. í neðri deild sagði nýlega að hann væri 1900 þús. kr., en það hlýtur að liggja í því, að hann hefir talið peningaforða landssjóðs með, sem er um 200 þús. kr. Eg hefi spurt 3. skrifstofu rétt nýlega um þetta, og 1750 þús. kr. hlýtur að vera rétta upphæðin. Viðlagasjóður er orðinn of hár. Það stafar af því, að tvö til þrjú undanfarin ár hefir of mikið verið lánað af peningaforða landssjóðs, og þannig sett fast í viðlagasjóði. Það hefir verið lánað út fram yfir vexti og afborganir, sem tilheyra viðlagasjóði, og þannig gengið á peningaforða landssjóðsins. Annars ætla eg ekki að fjölyrða meir um fjárlögin að þessu sinni. Eg vildi að eins láta deildinni í té þessar upplýsingar og nefnd þeirri sem hafa mun þetta langmerkasta mál þingsins til meðferðar.