02.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

46. mál, lækningaleyfi

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefi að vísu ekki „stúderað“ frumvarpið vel, en mér er samt óhætt að fullyrða, að öll ákvæði frumvarpsins eru ekki til í löggjöfinni nú. Eg skal t. d. benda á það, að eftir núgildandi lögum hafa fleiri rétt til læknisembætta en frv. ætlast til, að eftir þeim hefir landlæknir að eins tillöguvald, en eftir þessu frv. hefir hann sjálfstætt vald. Það má og nefna ákvæði 4. gr. um að læknir geti skotið úrskurði stjórnarráðs um þar um rætt málefni til dómstólanna. Þetta ákvæði er í samræmi við það nýmæli fyrirliggjandi stjskr.frv., að afsettur embættismaður skuli geta skotið afsetningarúrskurði stjórnarinnar til dómstólanna. Dómstólarnir eiga að vera trygging þess, að einstaklingarnir geti notið réttar síns. Smáskamtalöggjöf vor er óviðunandi, eins og hún er nú, sérstaklega af því að hið lögmælta eftirlit með því að henni sé hlýtt er of lítið, hér er gerð tilraun til að leiðrétta þá vöntun. Frumvarpið er að öðru leyti svo undirbúið, að deildinni er óhætt að hleypa því til 2. umr., sem enda er sjálfsögð kurteisisskylda gagnvart neðri deild að lofa því þangað.