15.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

91. mál, friðun hreindýra

Steingr Jónsson:

Á alþingi 1901 voru samþykt lög um friðun hreindýra og voru staðfest 8. nóv. sama ár. Tilgangurinn með þeirri friðun var sá að fyrirbyggja að þessari dýrategund, sem er eina veiðidýrategund landsins og til mikillar prýði, yrði algerlega útrýmt.

Menn vissu ekki til að hreindýr væru annarsstaðar til en á Brúar- og Mývatnsöræfum. Menn ætluðu að fyrir vestan Jökulsá í Öxarfirði væru 4 eða 5 dýr, en fyrir austan ána 40—50.

Höfðu þau verið skotin mjög síðustu árin, og fækkað stórum.

Friðunartíminn er eftir lögunum 10 ár, og er útrunninn 1. jan. 1911.

Á þessu árabili hafa dýrin fjölgað nokkuð. Á Brúaröræfum má ætla að þau séu nú 2—300, en það er lítið meir en þriðjungur þess sem þau voru þar fyrir 40—50 árum. Þá voru þau talin 5—600 þar. Á Mývatnsöræfum hefir þeim einnig fjölgað nokkuð, og munu vera nú um 30—40.

Það er fyrirsjáanlegt, að verði dýrin skotin nú á næstu árum, þá verða þau upprætt mjög fljótt. Það er því farið fram á að friðunartíminn sé lengdur um 5 ár, og geta menn þá séð, hvort óhætt er að leyfa að skjóta þau.

Eg hygg að flestir þingdeildarmenn muni vera sammála mér um það, að leitt sé að uppræta þessi dýr.

Vil eg að endingu mæla með því að málið gangi til annarar umræðu.