20.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Sigurður Stefánsson:

Það er nú líklega í sjöunda eða áttunda sinn, sem maður heyrir jarminn í þessum blessuðum Maríu og Péturslömbum. Það hefir verið varið til umræðanna hér á Alþingi um lömb þessi miklu meiri tíma og fé heldur en andvirði lambseldanna nemur.

Lambseldi þessi munu vera alls 67. Eins og kunnugt er, er hin almenna fóðurskylda prestslamba afnumin með sóknargjaldalögunum, fóðurskylda þessara lamba er því orðin nokkurskonar Anakronismus, sem ætti að hverfa hið bráðasta úr þessu.

Eg skal geta þess, að mér er nær að halda, að deilurnar um þessi lömb megi rekja alt aftur í tíma ráðgjafaþinganna, og síðan hefir málið altaf öðru hvoru verið á döfinni. Það er vitanlegt, að með þessari breytingu verður landssjóður fyrir dálitlum fjárhalla, eitthvað um 301 kr. eftir meðalverði á lambsfóðrum. Þetta er ekki mikið fé, umræðurnar um málið hafa kostað landið töluvert upp í þá upphæð, og geta kostað mikið enn, og hygg eg því bezt að málinu væri nú ráðið til lykta.

Einkennilegt er það, að um uppruna þessara blessaðra Maríu og Péturslamba veit enginn neitt. Eg hefi leitað upplýsinga um þetta hjá fróðum mönnum, en þeir eru alls ófróðir um það.

En hvað sem þessu líður, þá álít eg ekki rétt að vera nú lengur að spyrna á móti broddunum, og vænti þess að frv. verði samþykt. Eg skal geta þess, að eg finn ekki ástæðu til þess að málið verði sett í nefnd.