07.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Framsögumaður minni hluta (Kristinn Daníelsson):

Eg hefi ekki getað orðið samferða háttvirtum meðnefndarmönnum mínm í máli þessu.

Hér er verið að tala um hreina gjöf til eigenda þessara jarða; og held eg að mér sé óhætt að fullyrða, að það muni alveg einstakt í sögu alþingis, að gefið sé fé landssjóðsins, án þess að um nokkurt annað augnamið sé að ræða.

Háttv. frsm. meiri hl. kannaðist við í ræðu sinni, að þetta væri gjöf; það er líka alveg ómögulegt að neita því að svo sé. Það er beinlínis gjöf til jarðeigendanna, en kemur ábúendunum ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Jarðeigendurnir geta, ef þeim þóknast, hækkað leigumálann, nær sem vera skal.

Háttv. frsm. sagði, að engin hækkun gæti átt sér stað fyrst um sinn. Það get eg ómögulega fallist á; eg held þvert á móti, að margir menn mundu nota sér það þegar í stað. Þá talaði hv. frsm. um það, að þessi kvöð væri orðin svo úrelt, — það kemur málinu ekki við. — Það eru til enn þann dag í dag fleiri kvaðir, svo sem rekaréttur ofl., sem ekki er auðvelt að losast við. —

Enn færði hv. frsm. það fram, sínu máli til stuðnings, að 17 af jörðum þessum væru opinberar eigur. Hvað sannar það? ekki nokkurn hlut, — því hið opinbera gæti notað sér þessa verðhækkun, alveg eins og prívatmaður.

Munurinn yrði kanske sá, að hið opinbera notaði hækkunina, ef til vill ekki í sömu mynd, heldur á einhvern annan hátt.

Samkvæmt þessu, sem eg hefi komið fram með, hefi ég flutt breytingartill., sem fer fram á þá miðlun, að jarðeigendur greiði hvert lambseldi með 50 krónum; það þykir mér sanngjarnara gagnvart landsjóðnum. Eg ætla svo ekki að segja fleira um málið að sinni, vænti þess af hinni hv. deild, að hún taki sanngjarnlega á þessari miðlunartillögu minni.