09.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Flutningsm. (Stgr. J.) Eg flutti á þingi 1909, undir þinglok, frumvarp samhljóða þessu frumvarpi, sem eg nú flyt í háttv. deild. Frumvarpið var þá sett í nefnd og felt, af þeirri aðalástæðu, að málið þótti ekki svo vel undirbúið af minni hendi og þeirra, sem eg flutti það fyrir, að það gæti orðið samþykt, en ekki af því, að háttv. deild gæti ekki samþykt efni þess. Eg hefi leyft mér að koma fram með þetta frumvarp af nýju, vegna þess, að það er nauðsynja og áhugamál Húsvíkinga að fá jarðirnar keyptar. Og eg hygg að fyrirstaða sú, sem var á síðasta þingi, sé nú ekki fyrir hendi, því öll skjöl málinu viðkomandi eru fundin og liggja frammi hér á skrifstofu Alþingis.

Frumvarpið er óbreytt að öðru leyti en því, að eg hefi sett lágmark kaupverðsins tveim þúsund krónum lægra en á síðasta þingi. Það gerði eg með vilja bæði sökum þess að þá var það sett í hæsta lagi og svo af því, að þar í þorpinu hafa eignir fallið í verði og vonir manna um stórtekjur af lóðinni ekki ræzt, sem menn gerðu sér þegar þetta mál var undirbúið 1907. Eg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Eg býst við, að meiri hluti háttv. deildarmanna vilji að frumvarpið sé athugað í nefnd, og vil eg ekki setja mig á móti því, en mælast til að háttv. deild taki frumvarpinu vel og greiði atkvæði með því að það fái að ganga til nefndar.