11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Steingrímur Jónsson:

Af því að það hafa orðið talsverðar umræður um þetta mál, vil eg einnig segja nokkur orð.

Eg get að mestu verið sammála háttv. 5. kgkj. um að fjárhagsástandið í lok 1911 sé í raun og veru allgott, og býst eg við að tekjuhallinn á gildandi fjárlögum vegist nokkurn veginn upp. Þó upphæðir séu veittar á fjáraukalögum 1908—09, þá eru þær ekki til útgjalda nú, og því að eins hér að telja það, sem veitt er á fjárlögunum og fjáraukalögum 1910—11.

Þá getum við einnig verið sammála um að símaeignin gefur góðan arð.

Til símalagningarinnar var tekið 500 þúsund króna lán, og er nú eftir af því ógreitt (við árslok 1911) 433 þús. kr. Svo tók landsjóður lán til veðdeildabréfakaupa og vona eg að það verði eigi byrði fyrir fjárhag landsins.

Eg álít að sjálfsagt sé að taka lán til allra arðberandi fyrirtækja, og það þó ekki fáist af þeim fullkomlega þeir vextir, er borga verður. Þessu verður að dreifa á lengri tíma, og láta fyrirtækið vinna fyrir sér.

Og síminn hefir sýnt að hann getur unnið fyrir sér.

Háttv. þm. Ak. sagði, að hann gæfi ekki af sér 5½% og er það svo að þetta er ekki nákvæmlega rétt, en aftur voru nokkrar af aðfinslum háttv. þm. gjörsamlega staðlausar.

Þær 35 þúsund krónur, sem við greiðum hinu stóra norræna símafélagi, koma ekki innlenda símanum við, en að það fyrirtæki gefur sæmilega góða vexti má sjá í ársskýrslum félagsins.

Það er heldur ekki rétt, að ekki sé tekið tillit til viðhaldsins. Viðhaldskostnaður er auðvitað greiddur af tekjunum, áður en talað er um arðinn af símanum. En viðhaldskostnaður á síma er einmitt mestur fyrstu árin og vita þeir það sem kunnugir eru; en hve mikið þurfi að gera fyrir rýrnun veit eg ekki.

Þá er annað atriði, sem eg vildi minnast á, og það er hvort rétt sé að taka lán til vegagjörða, brúa og þvíumlíks — til fyrirtækja, sem gefa ekki beinan arð en borga sig óbeinlínis.

Eg geri ráð fyrir að það sé viss regla fyrir því, hvað leggja þarf árlega til vega, til viðhalds, nauðsynlegra umbóta og aukningar vegakerfisins. Meðan ekki er lagt fram meira en þessu nemur, má ekki taka lán.

Öðru máli er að gegna um höfn í Reykjavík. Til þess fyrirtækis er sjálfsagt að taka lán.

Eg álít fjárhagsástandið gott og ekki ástæða til kveinstafa, en fjármálapólitik landsins er nú að komast í athugavert horf.

Á undanfarandi þingum hafa stöðugt verið vaxandi kröfur og lýsir milliþinganefndin í skattamálum því bezt í áliti sínu.

Tekjur hafa að vísu aukist, en ekki nægilega, og hefir því orðið að grípa til bráðabirgðar tollauka. Milliþinganefndin í skattamálum sýndi fram á að landsjóður þyrfti að fá áreiðanlegan tekjuauka um 200 þús. kr. á ári, og er það alveg rétt; minna má það ekki vera.

En hvað hefir síðasta þing og þingið í ár gert í þessu máli ? Í stað þess að útvega þennan tekjuauka, hafa þau felt í burtu með bannlögunum 200 þús. kr. eða þó öllu heldur 300 þús. kr., því samkv. tolllögunum frá 1909 mátti áætla áfengistollinn svo hátt, þó hann að vísu hafi reynst minni árið 1910.

Það er eins og komið sé gat á landsjóðinn. Hér er komin að sú fjármálapólitík, sem getur eyðilagt á stuttum tíma allgóðan fjárhag. Þingmenn geta ekki farið heim í góðu skapi nema bætt sé úr þessu.

Þá eru símalögin, sem nú liggja fyrir neðri deild. Slík lög, er skipa símamálunum, líkt og vegalögin vegamálunum, hefðu átt að koma miklu fyrr.

Sjálfsagt er að símar þeir, sem lagðir verða framvegis, verði lagðir fyrir lánsfé, en fjárlögunum verði ekki íþyngt með því, svo skera þurfi niður framlög til árlegra þarfa.

Hvað hefir þá þetta þing gert og hvað getur það gert til að fylla upp í þá eyðu, sem orðin er?

Nýfráfarin stjórn hefir lagt fyrir þingið frumvarp um hækkun á vitagjaldi, erfðafjárskatti og á aukatekjum. Þessi frumvörp býst eg við að verði að lögum og munu þau gefa 65—70 þús. kr. tekjuauka á fjárhagstímabilinu. Auk þessa liggur fyrir háttvirtri neðri deild frumvarp um farmgjald, sem menn vita ekki um hvaða tekjur muni gefa, og óvíst hvort það nær fram að ganga. Talað er um, að það geti gefið 180 þúsundir á ári, en en það verður að líkindum langtum minna. Annars ómögulegt að segja með vissu hvað það verður. Verzlunarskýrslurnar eru ekki gerðar svo, að á þeim sé hægt byggja útreikning, er nokkuð sanni í þessu efni.

Þá liggur fyrir þessari háttv. deild frumvarp um frestun á framkvæmd bannlaganna. Eg hefi áður lýst skoðun minni á þessu máli. Að eins skal eg taka það fram, að allir bannvinir ættu að taka þessu vel, það var þeirra skylda að sjá fyrir tekjuaukanum.