11.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Hjörleifsson:

Það er að eins örlítil athugasemd, sem eg vildi gera við ræðu háttvirts framsögumanns fjárlaganna.

Hann sagði, að það væri rangt að telja þær 35 þúsundir króna, sem borgaðar eru á ári hverju til stóra norræna. Eg vil benda á að vegna útlenda sambandsins hefir landsíminn meiri tekjur, þar sem hann fær % af því sem fer gegnum sæsímann. Það er því fullkomlega rétt að telja líka þann kostnað hér með. Þá vil eg einnig benda honum á, að viðhaldskostnaður og fyrningarkostnaður er sitt hvað. En því er verið að tala um þetta í sambandi við þær 5½%, sem verið er að slá fram? Enginn þorir víst að halda því fram, að tekjurnar hafi verið 5½% fyrstu árin, og sé rétt reiknað, eins og öllum dánumönnum bæri að gera, þá eru tekjurnar heldur ekki 5½% þetta síðasta ár, þó verið sé að guma með þá tölu, ekki nærri því það.

Þá kem eg að aðalatriðinu. Mér virðist að mönnum vaxi heldur í augum þær tilraunir, sem gerðar er til þess að fylla það skarð, sem orðið er við lögin um aðflutningsbannið, og á því stagast, að þetta skarð hefði átt að fylla áður en lögin voru samþykt. En nú víkur því einmitt svo við, að mótspyrnan gegn auknum tekjum hér í þinginu á alla rót sína að rekja til óvildarinnar gegn aðflutningsbanninu, og ef hefði átt að auka tekjurnar áður, þá hefði eðlilega kveðið hér við sama tón, og allar tilraunir til tekjuauka, af öðru en áfenginu, verið taldar óhæfa; þannig stendur á þeirri mótspyrnu, sem hér er í þinginu gegn farmgjaldinu, og að segja, að farmgjaldið sé ómögulegt af því að ekki sé hægt að áætla nákvæmlega um tekjur af því, er fásinna.

Hvað vitum við t. d. um tekjurnar af útflutningsgjaldinu, ef satt skal segja. Þær tekjur eru í sjónum og geta brugðist. Hitt er raunar líka í óvissu um aðflutningsgjaldið, þótt aðflutningur til landsins fari reyndar árlega vaxandi, og eru þær tekjur því sízt óvissari en þær sem í sjónum eru.