25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

120. mál, farmgjald

Sigurður Hjörleifsson:

Það er ekki ætlun mín að halda langa ræðu að þessu sinni. Eg vil að eins benda á það, að nú er fjárhagur landsins alls ekki glæsilegur og við erum allir sammála um það, að þörf sé á tekjuauka handa landssjóði. Ef þessu lagafrumvarpi verður hafnað nú, er ekki hægt að búast við því, að unt verði á þessu þingi að sjá landssjóði fyrir hæfilegum tekjum, og vil eg ekki gera hinni hv. deild þær getsakir, að hún vilji ekki sjá um, að hann fái þær tekjur, er hann þarfnast nauðsynlega. Eg held, að aldrei hafi verið lagðar svo nýjar álögur á neina þjóð að ekki hafi jafnframt heyrst raddir um að þær væru óþolandi. Þetta er nærri því eðlilegt. Mönnum þykja þær álögur sem fyr eru, fullþungar og rís því hugur við, að bætt sé við þær. En það dugir ekki að líta of mikið á það. Eg held að það sé réttara að brýna það fyrir þjóðinni að henni beri að sýna þá ættjarðarást, að þola þessar nýju álögur með ljúfu geði, þegar þeim er varið til þarfa alls þjóðfélagsins.

Nú er hér ekki kostur á fullkomnu tolleftirliti, þingið hefir hingað til ekki séð sér fært að ráðast í það, og á meðan við ekki höfum það, verðum við að bjargast eftir beztu föngum. Þá er að eins spurning um það, hvernig við gerum það bezt. Með því að leggja tollana á fáa gjaldstofna er það fengið, að eftirlitið verður hægra. Aftur frá hinni hliðinni séð er það verra, því það verður því meiri hvöt hjá mönnum til að svíkja tollinn sem hann er hærri. Nú er svo komið, að til muna mun vera farið að svíkja toll á kaffi, sykri og tóbaki og hætt við að svikin yrðu enn meiri ef tollurinn væri hækkaður. Væri álögunum aftur jafnað niður á marga tollstofna, þá yrði minni hvötin til tollsvikanna, af því hver þessara tollstofna bæri minni útgjöid og hefir það allmikið sér til ágætis.

Á síðasta þingi lá fyrir frumvarp um nokkurskonar lestagjald. Það þótti þá óhæft vegna þess hve það kæmi ranglátlega niður. Þetta frumvarp, sem hér er um að ræða, er tilraun í sömu átt og reynt að bæta úr annmörkunum, sem þóttu á lestagjaldsfrumvarpinu, með því að hafa misjafna flokkaskipun, þannig að misjafnlega hátt gjald hvíli á hverri vörutegund. En að þetta fyrirkomulag sé óframkvæmanlegt, það get eg ekki gengið inn á. Eg hefi átt tal við mjög merkan og reyndan sýslumann um þetta, og hefir hann tjáð mér, að hann sæi enga örðugleika á framkvæmd þessara laga. Starfið er auðvitað töluvert mikið, en þá er líka að borga hærri innheimtulaun en af öðrum tollheimtum.

Viðvíkjandi drengskaparyfirlýsingunni, sem hv. 3. kgk. gerði svo mikið úr, þá er því til að svara, að nú sem stendur eru menn skyldir til að gefa samskonar drengskaparyfirlýsingu skriflega, þegar menn taka á móti póstsendingum, (Aug. Fl: Það er ljótur siður.) og enginn fengist um það. Þetta sama á nú að gilda um allar tollskyldar vörur, að menn gefi drengskaparvottorð um, að ekki hafi verið flutt meira inn af þeim, en til var sagt. Þegar þessu er nú svona háttað um póstsendingarnar, þá er hér ekki um neitt nýmæli að ræða, þó menn eigi að gefa drengskaparvottorð, og það gefur því ekki ástæðu til að vera á móti frumvarpinu. Eg læt mér nægja þessi fáu orð að sinni; eg býst við að frumvarpið verði rætt meira, þegar það kemur aftur frá nefnd þeirri sem væntanlega verður skipuð í málið.