25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

120. mál, farmgjald

Kristinn Daníelsson:

Eg hafði hugboð um það og þótti það sennilegt, að þegar frumvarp þetta kæmi hingað, að um það mundi verða deildar meiningar. Það gleður mig samt, hversu umræðurnar hafa farið skaplega fram, því eg tel ekki þetta sem háttv. sessunautur minn (St. J.) talaði um draumóra hálfvitlauss manns, sem var full sterkt til orða tekið, sem eg veit að hann muni sjálfur sjá við rólega yfirvegun.

Þetta mál lá hér fyrir á síðasta þingi, eins og kunnugt er. Mér fanst rétt að láta það ganga fram og gerði mitt til þess þá. Og eg tel það hefði farið betur, ef því frumvarpi hefði verið lofað að ganga fram, því þá hefði sú hlið fengið reynslu í þessu efni, auk þess sem það frumv. var að mínu áliti að mörgu leyti aðgengilegra en frv. það sem nú liggur fyrir.

Eg ætla mér ekki að tala mikið um fjárhaginn, hvort hann sé glæsilegur eða ekki glæsilegur. Eg fyrir mitt leyti tel hann ekki svo fjarska ískyggilegan, en hvað sem því líður, þá er eitt víst og það er, að við þurfum að taka upp nýtt búskaparlag, málefni vor eru komin í það öngþveiti nú sem stendur, að ekki verður hjá því komist lengur að taka nú upp nýjar aðferðir og nýjar reglur. Það hefir verið bent á margt og eitt er þetta, og það mun reka að því, að eitthvað verði reynt til að jafna það ástand, sem verður fyrir dyrum í nálægri framtíð, og eg get ekki séð að þetta sé ekki reynandi. Eg álít, að með því að samþykkja þetta frv. sé gerð tilraun til að rétta við fjárhag landsins, tilraun, sem eg taldi heppilegt að hefði verið gerð á síðasta þingi.

Hér í deildinni hafa nokkrir talað á móti frumvarpinu og dregið fram ýmsar ástæður gegn því. Sérstaklega var það háttv. 3. kgkj. (A. Fl.), sem talaði einna skarpast á móti því, og fann því ýmislegt til foráttu. Háttv. þm. Akureyrar hefir svarað honum. Eg vil þó að eins benda á, að ákvæðið um drengskaparyfirlýsinguna er tekin upp í farmgjaldsfrumvarpið úr 5. gr. tolllaganna 1901, og engin breyting á því gerð.

Hvað snertir þessar 70—80 hafnir, sem hann sagði að hafa yrði tolleftirlit á, þá er það álit manna, að þessi lög muni ekki útheimta meira eftirlit en tolllögin sem nú eru. Það hefir verið bent á það, og liggur í augum uppi, að það verði minni freisting til að svíkja toll, þegar um svo lágt gjald er að gera, heldur en þegar það er mjög hátt.

Alt öðru máli er að gegna um það, að ósanngirni yrði í flokkuninni. Það má sjálfsagt ræða lengi um flokkaskiftinguna, áður en að öllum þyki hún sanngjörn og réttlát, það verður að vera hlutverk háttv. nefndar, sem fjallar um málið, að laga hana með bendingum frá einstökum þingmönnum.

Háttv. 5. kgk. (L. H. B.) fór nokkuð hörðum orðum um þetta frv. Hann kallaði það ranglátt, handahófskent og praktískt óframkvæmanlegt. Þetta eru of sterk orðatiltæki, því að það er bersýnilegt að hér er verið að gera tilraun til þess, að gera frumvarpið ekki ranglátt og komast hjá handahófi. Það er bágt að koma því í það horf, að engir gallar finnist á því, svo eg vil alls ekki taka hart á háttv. þm., þó að hann tæki sér svona stór orð í munn, með því líka að eg heyrði, að hann gerði ráð fyrir því, að umsteypa mætti frv. svo, að við það mætti bjargast fyrst um sinn.

Hæstv. ráðherra kvað frumvarpið hafa stórversnað frá því sem það var á síðasta þingi. Eg get tekið undir það með honum, Eg hefði álitið það frv. betra til að byrja með, en úr því það náði ekki fram að ganga, þá vil eg að þessi tilraun sé gerð. Hæstv. ráðherra kvartaði og um að enginn gæti gefið sér neina ábyggilega skýrslu um, hvað mikið muni fást inn af þessu frumvarpi. Það er náttúrlega ekki gott að segja. Ábyggilegt er relativ hugmynd, einn álítur þetta ábyggilegt, sem annar álítur ekki ábyggilegt.

Að öllu þessu athuguðu samanlögðu, vona eg að frumvarpið gangi kapplaust í gegnum hv. deild. Það hefir komið fram uppástunga um að skipa fimm manna nefnd í málið, og einnig hefir verið stungið upp á að vísa málinu til nefndar, sem hefir verið kosin áður hér í deildinni. En með því að tíminn er orðinn naumur, er ef til vill réttara að kjósa sérstaka nefnd í þetta mál, og vil eg heldur aðhyllast þá uppástungu, þótt eg geri það ekki að kappsmáli.