06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

120. mál, farmgjald

Kristinn Daníelsson:

Eg veit vel, að það þýðir lítið að tala um þetta mál.

(Stefán Stefánsson: Því þá að vera að tala um það?)

Það getur verið ástæða til þess, úr því að aðrir taka til máls, og það þarf að svara sumu af því sem sagt er. En annars komst eg svona að orði af því að eg heyrði merkan mann úr mótflokknum segja í morgun, að frumvarpinu væri bani búinn.

Eg hefi ekki enn þá heyrt þau rök koma fram í málinu, sem sýni, að frumvarpið sé óaðgengilegt. Það sem helzt hefir verið haft að mótbáru gegn því er, að það sé óframkvæmanlegt. Eg heyrði hæstv. ráðherra ekki færa nein rök fyrir þessu, og eg lagði þó vel við hlustirnar. En eg heyrði lögreglustjóra segja um það, að það væri vel framkvæmanlegt; sá hinn sami taldi engin vandkvæði á því.

Þá er því haldið fram, að frumvarpið gefi ekki landsjóði meira í tekjur en 60 þús. kr. En það hljóta allir að sjá, að það er meira að marka reikninga þess manns, sem mest hefir kynt sér málið.

Nefndin hefir látið sér nægja að mótmæla áætlunum þeim, er gerðar voru um tekjur þær, er landsjóður hefði af því, að frumvarpið yrði að lögum, en ekki leitað upplýsinga hans. Háttv 5. kgk. þm. (L. H. B.) sagði, að háttv. 3. kgk. þm. (Aug. Fl.) hefði gert glögga grein fyrir því, að frumvarpið væri óhafandi Eg skal ekki lasta það sem hann sagði. Hann talaði gætilega og hyggilega á margan hátt. En hann hefir ekki hlustað á ræðu háttv. þm. V. Sk., sem svaraði háttv. 3. kgk. þm. með góðum rökum.

(Lárus H. Bjarnason: Þingmaður Vestur-Skaftfellinga tala með rökum!)

Já, eg stend við það. Háttv. þm. V.- Sk. færði góð rök fyrir máli sínu.

(Lárus H. Bjarnason: Nú er eg alveg hissa. Nú er þingmaðurinn að gera að gamni sínu).

Þá beindi háttv. framsögumaður orðum sínum til mín og spurði mig að því, hvort eg héldi, að með þessu móti yrði meira lagt á hina ríku en þá fátæku. Hann bætti því við, að eg hefði sagt, að kaffi- og sykurtollur lenti jafnt á ríkum og fátækum. Eg sagði, að fátækur maður við sjó borgaði oft jafnmikinn eða meiri kaffi- og sykurtoll en ríkur embættismaður í Reykjavík — og þetta kalla eg hinn mesta ójöfnuð. Hann spurði mig ennfremur, hvort eg áliti, að með þessu móti yrði lagt meira á ríkismanninn en fátæklinginn. Eg svara því fortakslaust játandi. Ríkismaðurinn gerir t. d. 2000 kr. umsetning, fátæklingurinn aftur ekki nema 200 kr. umsetning. Það er auðsætt, að ríkismaðurinn hlýtur að gjalda meira í landsjóð með þessu fyrirkomulagi. Það er ekki til neins að bera á móti því, að það er jöfnuður að því að færa skattagjöldin yfir á sem flestar vörutegundir

Það er verið að tala um, hvar ábyrgðin sé á fjárhag landsins. Úr því að verið er að ympra á þessu, verð eg að láta í ljós skoðun mína á því. Ábyrgðin hlýtur að lenda á þeim, sem verða í meiri hluta við þá atkvæðagreiðslu, sem á að fara fram eftir fáeinar mínútur í þessum sal. Frumvarpið veitir landsjóði fé, og ef meiri hluti háttv. þingdeildarmanna ræður frumvarpinu bana, hindrar hann, að landsjóður fái fé. Eg vil að síðustu skjóta því til þeirra, sem fyrir viðburðanna rás eru í meiri hluta í þessum sal, að þeir láti þetta frumvarp ná fram að ganga og búi ekki þannig til ábyrgð, sem á að líta svo út um, að lendi á minni hlutanum, en hlýtur að lenda á þeim sjálfum eða getur lent á þeim sjálfum.