06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

120. mál, farmgjald

Sigurður Hjörleifsson:

Eg vil taka það fram út af ummælum, sem komið hafa fram, að af hálfu okkar minni hluta nefndarmanna var boðist til að breyta þessu farmgjaldi í lestargjald; það var því ekki eingöngu um þetta frumvarp að ræða. Það var að ræða um það að útvega landsjóði fé með einhverju móti. Það var boðist til þess að leggja á eitthvert alment gjald til að útvega landsjóði tekjur. Eg vissi lengi vel ekki annað en frumvarpið ætti fram að ganga. En fyrst þegar meiri hlutinn var búinn að skrifa nefndarálit sitt, sá ég að það átti að fella það, en í þess stað fara fram á hækkun á tolli af kaffi og sykri. En eins og sýndi sig í gær, reyndist þetta tómur leikur. Öllum boðum til samkomulags til að auka tekjur landsins var hafnað, þegar ekki var hægt að koma fram því eina sáluhjálplega, frestun bannlaganna. Einlægt er verið að stagast á því, að bannlögunum skyldi ekki vera frestað.

(Stefán Stefánsson: Það verður lengi gert).

Það hefði verið nær að fresta þeim, segja þeir. Sumum háttv. þingmönnum virðist ekki vera sárt um, þótt fjárhagurinn sé slæmur, ef það yfir höfuð má ekki útvega landinu tekjur með nokkru öðru móti en ónýta lög, sem á seinasta þingi voru samþykt með miklum meiri hluta atkvæða eftir ósk ? hluta kjósenda. Annars skil eg ekki þá „lógik“, sem kom fram í ræðu háttv. 5. kgk. þm. (L. H. Bj.) og hæstv. ráðherra. Þeir drótta því að sjálfstæðisflokknum, að það sé honum að kenna, að fjárlögin líti út, eins og þau líta út, og að þessi mikli tekjuhalli er í þeim. Það er nú alt af verið að gera hvell út af þeirri hækkun á útgjöldunum, sem varð á þeim við síðustu umræðu í neðri deild. En eg vil benda á það, að gjöldin hafa líka hækkað hér í deildinni, eins og öllum háttv. þingdeildarmönnum er kunnugt. Annars er ekki sá munur á flokkum nú, að annar flokkurinn geti slengt af sér ábyrgð yfir á hinn. Það er annað mál um þau atriði, sem eru gerð að hreinum flokksmálum. En fjárlögin eru svo samanfléttuð, að enginn einn flokkur ber ábyrgð á þeim í heild sinni.

Eg ímynda mér að óhætt sé að segja, að báðir flokkar beri ábyrgðina á fjárlögunum jafnt eða mjög líkt. En það er þjóðin sjálf, sem ber aðalábyrgðina á því, hvernig fjárlögin fara út úr þinginu nú, því að hún krefst meiri og meiri fjárveitinga til ýmislegra fyrirtækja í landinu. Eg segi þetta ekki þjóðinni til ámælis, þetta sýnir framfaraþrá hennar, og er henni sízt láandi þó hún heimti verklegar framfarir í landinu, en hún hefir ekki gætt þess, um leið og hún heimtar umbæturnar, að krefjast þess þá líka, að gjöld séu lögð á hana. Umbætur þær, sem þjóðin vill að gerðar séu, útheimta meira fé en hún telur sig færa að greiða. Þetta er ástæðan til þess að fjárlögin verða nú að öllum líkindum afgreidd með talsverðum tekjuhalla frá þessu þingi. Þetta vil eg segja þeim mönnum, sem alt af eru að japla á því, að það sé sjálfstæðisflokkurinn, sem beri alla ábyrgð á fjárhag landsins. Hinsvegar dettur mér ekki í hug að reyna að velta af sjálfstæðisflokknum ábyrgðinni á því sem virkilega er hans verk; t. d. tek eg fúslega á mig minn hluta af ábyrgðinni á því að hafa felt frestun bannlaganna, og veit eg að sú ábyrgð verður mér ekki þungbær.

Hæstv. ráðherra neitaði því, að nokkur stjórnarflokkur væri til á þingi. Hann talaði öðruvísi fyrir skemstu, þegar hann var að láta mikið yfir því, hversu mikið fylgi hann hefði í þinginu, en storkaði mér aftur með því að eg hefði ekkert fylgi að baki. Hann sagði sömuleiðis, að eg hefði ekki borið fram vantraustsyfirlýsingu á sér hér í deildinni, og að sú vantraustsyfirlýsing, sem fram kom í n. d., hafi verið feld. En þetta sannar ekki það sem hann vildi sanna, heldur það gagnstæða. Það sannar það, að flokkar eru óákveðnir í þinginu, og um vantraustsyfirlýsinguna í n. d. vita allir hvernig fór. Hún féll niður með eins atkvæðis mun, fyrir gustukaverk frænda hans. Enn eru mörg gustukaverkin á þingi. Hæstv. ráðherra hrósar sér af því, að hann sé betri sjálfstæðismaður en eg. Eg hefi aldrei gefið honum tilefni til slíkra ummæla eða gortað af því eins og hann, hve góður sjálfstæðismaður eg væri. En hitt er öllum kunnugt, að núverandi ráðherra tók við embætti, eftir að búið var að tilkynna honum að mikill meiri hluti þjóðkjörinna þingmanna væri öðrum manni fylgjandi, og þegar svo er ástatt, þá bið eg guð að hjálpa sjálfstæði þessa lands, ef það þarf að eiga mikið undir mönnum, sem byrja stjórn sína á því að brjóta þingræðið.