06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Jósef Björnsson. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, kom fyrir þingið í þingbyrjun og hefir n. d. haft það til meðferðar, en hingað til deildarinnar hefir það ekki komið fyr en fyrir örfáum dögum. Nefndinni hefir því ekki gefist mikill tími til þess að athuga það og hefir hún að eins getað rætt málið á einum fundi.

Þetta fjárkláðamál er vandræðamál, fyr og síðar. Eins og kunnugt er, var fyrir skemstu varið stórmiklu fé úr landssjóði til þess að útrýma fjárkláðanum. En þrátt fyrir alt það fé og fyrirhöfn hefir sú raun orðið á, að sjúkdómurinn er ekki upprættur enn. Einmitt síðan þessi tilraun var gerð, hefir komið upp fjárkláði í öllum sýslum landsins, nema 3 eða 4, nefnil. Skaftafellsýslu, Vestmannaeyjum og Suður-Þingeyjarsýslu; í síðastnefndri sýslu hefir kláðinn ekki komið upp síðan 1907. Eigi að síður hefir kláðinn ekki gert mikið vart við sig, en hann virðist vera að aukast nú á seinni árum, einkum þó í vetur.

Það má vera, að það væri hægt að útrýma kláðanum, án þess að gera ný lög um það efni, ef það væri einlægur vilji fjáreigenda að hafa vakandi auga á veikinni og baða alt fé árlega. En með því að ekki er hægt að búast við, að svo geti orðið, og á hinn bóginn af því, að annaðhvort verður að fyrirskipa almennar baðanir um alt land eða skifta sér ekkert af málinu frá löggjafarvaldsins hlið nú, en láta þau lög nægja, sem nú gilda, þá sýnist nefndinni rétt að aðhyllast þetta frumv. Samkvæmt því er landsstjórninni gefin heimild til þess að fyrirskipa 2 baðanir með hæfilegu millibili á vetrinum 1911— 1912 og er ætlast til að með því verði komið í veg fyrir frekari útbreiðslu kláðans. Frv. gerir ráð fyrir, að kostnaður við eftirlit kláðalækninga í hverri sýslu og umsjón með böðunum sé að nokkru leyti greiddur úr landssjóði.

Þessi kostnaður, sem fellur á landssjóð, álítur nefndin að verði alls og alls full 20 þús. krónur.

Og nefndinni taldist svo til, að allur kostnaður við baðanirnar í heild sinni mundi verða eitthvað á annað hundrað þús. krónur. En megnið af þessum kostnaði eiga fjáreigendur sjálfir að bera, landssjóður að eins að borga hálft kaup kláðalækna og baðara, og helming af öðrum tilkostnaði þeirra.

Eg skal játa, að mér hefði ekki fundist neitt á móti því, að fjáreigendur borguðu sjálfir allan kostnaðinn. En með því að nú er orðið svo áliðið þingtímans, er ekki nema um tvent að gera, annaðhvort að samþykkja frv. óbreytt, eða láta málið falla niður. Og þar sem svona stendur á, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að taka tillit til þeirra nauðsynjar að hefta útbreiðslu kláðans, og leggja til að hv. deild samþykki frv. eins og það liggur fyrir. Með þessum ummælum skal eg láta úttalað um málið að sinni.