06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Steingr. Jónsson:

Eg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, vegna þess að eg var og er mjög hikandi við að samþykkja þetta frv. eins og það er. Fyrst og fremst er eg í vafa um, hvort frv. þetta er til nokkurra umbóta, frá þeim lögum, sem vér höfum nú. Auk þess er annað: Er það víst, að kláðinn sé svo útbreiddur, að almennra baðana þurfi við? Það er að vísu sagt, að kláðinn hafi komið upp í flestum sýslum landsins. Háttv. frsm. nefndi þó nokkrar sýslur, sem fjárkláða hafði ekki orðið vart, þar á meðal Suðurþingeyjarsýslu, því að þar hefir kláði ekki komið upp síðan 1907. En auk þess má telja Eyjafjarðarsýslu og Norðurmúlasýslu. Þar er enginn kláði, og í Suðurmúlasýslu hefir að eins komið upp kláði á einum eða tveim bæjum nú fyrir skemstu. Það eru aðeins 4 sýslur, sem kláði hefir komið upp til muna, Árnes- og Rangárvallasýsla, Húnavatns- og Skagafjarðarsýsla. Með öðrum orðum: það væri nægilegt að fyrirskipa baðanir í þessum 4 sýslum. Kláðinn er tæpast almennur annarstaðar. Náttúrlega getur verið, að kláðinn kunni að koma upp víðar, því að hann getur leynst, þegar hann er á vægu stigi. En eg er í vafa um, hvort svo mikil brögð eru að kláðahættunni, að þetta mikla apparat þurfi. Hins vegar er mál þetta þess vert, að því sé sint, því að kláðinn var áður regluleg landplága. En svo er önnur spurning. Er það áreiðanlegt að þessi böðun verði árangursmeiri en fyrri tilraunir? Ef það er ekki víst, þá virðist miklu fé stofnað í hættu að nauðsynjalausu. Því að það er áreiðanlegt, að það má halda kláðanum í skefjum með þeim lögum, sem vér höfum nú. Svo er enn eitt: Er ástæða til þess að leggja nokkuð af þessum kostnaði á landssjóð? Það er áður búið að verja yfir 200 þús. úr landssjóði til kláðalækninga. Væri nú ekki réttara að láta fjáreigendur bera allan þennan kostnað, þegar búið er að létta svona mikilli byrði af þeim áður? Það verða 20—25 þús., sem þetta kostar landssjóð. Og það er ekki lítið fé. Enn er þess að gæta við þetta frumv., að það vantar í þriðju grein ákvæði um, að gjald fyrir baðlyf, flutning, geymslu og annan kostnað, megi taka lögtaki. Þetta þyrfti að taka fram, því að annars hafa gjöld þessi ekki lögtaksrétt. Eins þyrfti líka skýrar að vera tekið fram, að fjáreigendur sjálfir beri allan kostnað við baðanirnar, annan en helming kostnaðar við baðara og kláðalækna. Mér sýnist svo margt athugavert við frv., að eg vil taka það fram, að það getur vel verið, að eg greiði atkvæði á móti því úr deildinni, þótt eg geri það ekki við þessa umræðu.