06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Jens Pálsson:

Að eg hefi gengið úr forsetasæti og beðið um orðið í þessu máli stafar af því, að eg hygg mig kunnugastan allra háttv. deildarmanna verklegri viðureign við fjárkláðalækningar um undanfarin 30—40 ár. Stendur svo á því, að eg 1874 reisti bú og eignaðist sauðfé í einhverri hinni grómteknustu fjákláðassveit á suðurlandi á þeim tíma, Ölvesinu. Um það leyti var Jóni heitnum landritara Jónssyni falið með konunglegu umboði (Commissorio) að útrýma fjárkláðanum með lækningum á hinu grunaða og sjúka kláðasvæði hér sunnanlands; en þá var fortekið að nokkur fjárkláði ætti sér stað annarstaðar á landinu. Jón landritari ferðaðist um sveitirnar, skipaði fyrir um lækningar eftir dýralæknisráði og fyrirmælum, setti menn til framkvæmda og gekk eftir að hlýtt væri settum reglum. Bændum lærðist af þessu listin að lækna fjárkláðann og honum var útrýmt með öllu af lækningasvæðinu á tiltölulega skömmum tíma, án nokkurs annars kostnaðar af hálfu hins opinbera, að því er eg bezt veit, en ferðakostnaðar til Jóns landritara. Liðu síðan allmörg ár svo, að lítt eða ekki var fjárkláða vart né á hann minst manna á meðal eða í blöðum landsins. Svo fór það smátt og smátt að koma upp úr kafinu, að fjárkláðinn sé að gera vart við sig og að magnast í ýmsum sýslum landsins öðrum en fornu kláðasýslunum hér á suðurlandi. Og nú fór hann einnig að berast inn í þær með einstökum kindum úr réttum annarstaðar að. En hér syðra var hann jafnharðan læknaður. Annarstaðar á landinu var það ekki gjört, og fjárkláðinn magnaðist þar, og varð á ný að stórmáli, er landsstjórnin og blöðin létu mjög til sín taka. Um það leyti var fullyrt, að fjárkláða hefði verið útrýmt úr endilöngum Noregi með tóbaksseyðisbaði með forgöngu og umsjón Myklestads dýralæknis. Varð þá að ráði að gera hið sama hér á landi. Myklestad var til þess fenginn að framkvæma slíka útrýmingarböðun á landsins kostnað að mestu leyti. — Eg var frá upphafi vantrúaður á, að fjárkláðinn upprættist hér á landi á þennan hátt, og fór ekki dult með þá vantrú. Mér þóttu engar líkur til, að í útigangssveitunum næðist hver kind í baðið, né að hellar og skútar, er útigangsfé liggur við, yrði tryggilega hreinsað o. s. frv. Og er eg sá böðunaraðferðina, sannfærðist eg um, að með slíkri aðferð yrði fjárkláði eigi upprættur. Engin rannsókn um hörundskvillann gerð fyrir fram á kindunum; þeim dembt í að eins eitt tóbaksseyðisbað, — og öllum kláða átti þar með að vera útrýmt, og alt trygt framvegis. Þessi aðferð stakk í stúf við þá, er viðhöfð var við kláðaútrýminguna hér syðra fyrir meir en 30 árum. Þá var hver kind rannsökuð fyrirfram, þuklað um alt hörund hennar, og fyndist kláðaþref eða hrúður, var það rifið upp og borinn í tóbakslögur vendilega; en þar á eftir voru kindurnar baðaðar í maurdrepandi legi tvisvar með hæfilegi millibili. —

Þegar eg sá þessa nýju aðferð, blandaðist mér ekki hugur um, að okkur hefði verið nær að láta einhvern dugandi bónda, er fengist hefði við fyrri kláðaútrýminguna hér syðra, t. d. hreppstjóra Jón Árnason dbrm. í Þorlákshöfn, standa fyrir og stjórna þessari seinni útrýmingarlækning með ráði dýralæknis vors, en þennan norska Myklested. —

Okkur var talin trú um, að þessi Myklestads lækning væri tryggileg til algerrar upprætingar og útrýmingar fjárkláðanum í landinu. Þessu trúði stjórnin og þingið og því var ráðist í útrýmingarböðunina yfir land alt, og kostað til of fjár, alt að ¼ miljón króna, að sögn. En þess trú var ekki annað en hjátrú og hefir því brugðist. Fjárkláðanum er ekki útrýmt úr landinu, hann er enn við líði í 4 sýslum landsins að mun, og nokkrum fleirum að litlu leyti. —

Er nú ekki þessi reynsla nógu þung og nógu dýrkeypt til þess, að gera okkur dálítið tortrygna og hikandi, að stofna til annarar afardýrrar samkynja tilraunar, eins og gert er með þessu frumvarpi. Framkvæmd þess yrði afardýr landssjóði, sýslusjóðum og sveitasjóðum, en allir þessir sjóðir eru víðast hvar hlaðnir helzti miklum útgjöldum undir. — Frumvarpið verður, ef það verður að lögum, of dýrt, og að minni skoðun eru slík lög ekki nauðsynleg. — Viðureign hvers fjáreiganda sem er við kláða, þá er hans verður vart í hjörð hans, er ekki eins örðug og af er látið; og þótt fjárkláða hafi nú orðið vart á fám bæjum í landinu, tel eg engan voða á ferðum. Það er engum meðalgreindum manni ofvaxið að lækna kindur sínar af kláða, ef menn að eins vilja það og hirða um það. Og aðhaldi má beita við menn með lögum þeim, er vér þegar höfum um það efni. — Sé kláðinn læknaður, þar sem hann kemur upp, og öllu sauðfé gefið gott þrifabað árlega, mun fjárkláði og önnur óþrif haldast niðri í landinu. Að lögleiða árleg þrifaböð, 1 eða 2, á öllu sauðfé væri þarflegt og borgaði sig vel, en þetta frumvarp er að minni skoðun ekki heppilegt og á að falla. —