06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Jósef Björnsson:

Eg skal ekki lengja umræður um mál þetta, en vildi þó beina örfáum orðum til hv. 4. kgk. Eftir þessu frv. er ætlast til að alt fé sé tvíbaðað, og það þykir mér augljóst, að ekki muni duga eitt bað til þess, að útrýma kláðanum fljótlega með öllu. Um það eru menn samdóma, sem bezt vit hafa á þeim hlutum. Full trygging fæst, ef til vill, tæplega þótt tvíbaðað sé, en frekari trygging liggur í að taka kláðann, nú þegar hann er lítill, og í tvíböðun. Að því er kostnaðinn snertir, er eg háttv. 4. kgk. alveg sammála; eg hefði kunnað betur við að fjáreigendurnir sjálfir bæru allan kostnaðinn. Eg get líka viðurkent með hæstv. ráðh., að það geti orðið landssjóði talsvert örðugt, að leggja fram alt það fé, sem til lækninganna þarf, jafnvel þótt endurgjaldið sé víst.

Að því er snertir ræðu hv. 2. þm. Kjósar- og Gullbringusýslu, þá er eg honum að miklu leyti sammála um það, að oft sé hægt að lækna, ef viljinn er góður. Hann sagði, hv. þm., að hér væri í raun og veru enginn voði á ferðum; þar er eg honum ekki alveg samdóma; menn hafa kanske ekki altaf eins nánar gætur á máli þessu og skyldi, og þá getur vitanlega fjárkláðinn útbreiðst stórkostlega. En eg er hv. þingm. alveg samdóma um það, að fjárkláðanum megi að miklu eða öllu leyti útrýma án nýrra laga, sé einbeittur vilji á því meðal fjáreigenda í landinu og samtök góð; og eins er eg honum samdóma í því atriði, að þrifaböð á sauðfé ættu að vera fyrirskipuð á hverju heimili. Það er eitt þeirra atriða, sem eg tel mjög þýðingarmikið, og sem eg sakna mjög að ekki standa í frumvarpinu. Eg er þess fullviss, að með því móti mundi fjárkláðinn aldrei ná neinum verulegum tökum, og að líkindum hverfa með öllu með tímanum, þó ekki væri annað lögskipað. En þrifaböð margborga sig auk þess fyrir fjáreigendur í betri þrifum og meiri afurðum sauðfjárins.