06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Stefán Stefánsson:

Háttv. 4. kgk. sagðist vera hikandi í máli þessu; en það er eg ekki; eg mun hiklaust greiða atkvæði á móti því.

Eg er algerlega sammála hv. þm. Kjósar- og Gullbr.sýslu um það, að fjárkláða megi útrýma með þeim fyrirskipunum og lögum, sem nú höfum vér. Og takist það ekki, þá er það einungis fyrir okkar eigin trassaskap. Fjárkláði er enganveginn eins algengur og menn virðast ætla. — Það er ekki rétt, að fjárkláði hafi verið í Eyjafirði; og það er stórmerkilegt, að dýralæknirinn skuli hafa haldið því fram, að svo hafi verið. Eg vil benda á, að skýrsla um þetta efni í blaðinu „Norðurlandi“ var röng, óviljandi, og hefir verið leiðrétt síðar; og eg vil taka það fram, að eg met meira reynsluna í þessu efni heldur en álit og ummæli hinna svokölluðu lærðu dýralækna. Og það er eingöngu skeytingarleysi manna að kenna, ef ekki tekst að útrýma fjárkláðanum með þeim lögum, sem nú höfum vér.