06.05.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Jens Pálsson:

Það eru aðeins fáein orð, er eg vildi mega bæta við það, er eg sagði áðan. —

Eftir því sem fram hefir verið tekið í umræðunum hér í deildinni, og bygt mun vera á opinberum skýrslum, eru heilar sýslur alveg lausar við fjárkláða, og þær ekki allfáar. Skal eg í sambandi við þetta láta þess getið, að eg veit ekki betur, en að Gullbringusýsla hafi verið alveg laus við kláða um langt skeið áður en útrýmingarböðun Myklestads fór fram, og síðan hefi eg ekki heldur heyrt þess getið, að fjárkláða hafi orðið þar vart. — Hvort það var á undan þeirri böðun eða á eftir að eg heyrði kvitt um kláðavott á einhverjum bæ í Kjósarsýslu, man eg ekki með vissu. — Eg verð, af því, sem mér er kunnugt um fjárkláðann í landinu, á yfirstandandi tíma, að álykta að hann sé til á einstaka bæ í fáeinum sýslum landsins.

— Út frá þessu gekk eg í fyrri ræðu minni, og út frá því spyr eg aftur nú: er það skynsamlegt og réttmætt, að hleypa landinu öllu í ærinn kostnað út af þessu, — og það með annari eins rekistefnu og vafstri og frumvarp þetta fer fram á? Eg held ekki. — Skal eg þessu til skýringar taka það dæmi, að hlaupabóla kæmi á börn á einu heimili í hreppi, eða að almennur kláði í greipum og höndum manna væri á tveimur eða þremur heimilum í sýslu, mundi það þá þykja skynsamlegt að fyrirskipa með lögum dýra og fyrirhafnarsama kláðalækning á öllum börnum í hreppnum eða öllum manneskjum í sýslunni? Eg held ekki. Eg held það þætti vera og væri fjarstæða. — Og sama finst mér um þetta frumvarp.

Á hinn bóginn hefi eg ekkert á móti hinni rökstuddu dagskrá hv. þingmanns Ísafjarðarkaupstaðar. Það er þýðlegri meðferð á frv. að víkja því frá á þann hátt, en að fella það. Það tel eg rétt að stjórnin taki málið sér í hönd, og mjög er eg því hlyntur, að lögskipaðar verði hér á landi þrifabaðanir á sauðfé, — ein eða tvær á ári hverju.

Væri fjárkláðinn með rækilegri rannsókn eða skoðun alls sauðfjár á landinu, leitaður uppi, þar sem hann er, og gjörlæknaður þar, og væru svo árlegar þrifabaðanir lögleiddar og framkvæmdar svikalaust af öllum fjáreigendum á landinu, þá hygg eg að hætta og tjón af fjárkláða og öðrum hörundskvillum og óþrifum í sauðfé væri þar með úr sögunni.