27.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Framsögumaður (Steingrímur Jónsson):

Eins og menn sjá á nefndarálitinu og á breytingartillögum nefndarinnar á þingskjölunum 727—728, hefir nefndin ráðið háttv. deild til að gera allmiklar breytingar á þessum kafla; það eru þó ekki stórvægilegar breytingar í fjárhagslegu tilliti. Það er ekki farið fram á meiri gjaldaauka, af því að nefndinni þótti fjárhagurinn nokkuð þröngur, og af þessu leiddi, að nefndin getur því miður ekki tekið til greina ýmsar fjárbænir, er henni bárust, því að það er sannast að segja, að allmikill búnki af réttmætum bænum liggur í skjalasafni þingsins, sem alls ekki hefir verið sint.

Gjöldin eru í frumvarpinu áætluð 3,168,523 kr. 34 aurar. Ef breytingartillögur nefndarinnar verða samþyktar, hækka þau um 30 þúsund kr. og verða þá alls um 3 miljónir og 200 þús. kr.; þar er

með öðrum orðum kominn yfir 300 þús. kr. tekjuhalli, og því miður verður hann víst meiri, ekki sízt ef það er rétt að tekjur af áfengi séu settar 110 þús. kr. of hátt. Það verður því meiri en lítill tekjuhalli á fjárhagstímabilinu. Eg gaf áðan yfirlit yfir tekjur landsins á seinustu árum, en þessar tekjur eru dálítið breytilegar, þannig að það er misjafnt, hvaða tekjugreinir hækka. Áður vóru það tollarnir, sem hækkuðu, en þetta hefir breyzt. Tollar voru 1906—1907 áætlaðir 1,216,800 kr., en reyndust 1,569,039 kr. 1908-1909 1,293,000 kr., en reyndust 1,494,874 kr. 1910—1911 vóru þeir áætlaðir 1,670,000 kr. 1912— 1913 1,450,000 kr.

Tollar eru því ekki gerðir eins háir næsta fjárhagstímabil og hið fyrirfarandi, af því að menn þykjast hafa séð fyrir, að þeir hækki ekki eins mikið og áður. Í öðrum tekjugreinum er aftur „tendens“ til hækkunar, einkum fer útflutningsgjaldið hækkandi. 1906—1907 var það áætlað 130,000 kr., en varð 324.606 kr. 32 aur, 1908—1909 var það áætlað 200 þús. kr., en reyndist 398 þús. 643 hundr. kr. og 24 aurar. 1910—1911 var það áætlað 240 þús kr. og 1912—1913 300 þús. kr.

Af öðrum tekjuliðum hafa símatekjur og tekjur af póstferðum oft reynst hærri en áætlað hefir verið, t. d. voru símatekjur á fjárhagstímabilinu 1906—7 áætlaðar kr. 22,500,00, en reyndust kr. 55,092,43. Á tímabilinu 1908—9 áætlaðar kr. 100,000,00, en reyndust 151,529,14, og pósttekjur voru á tímabilinu 1906—7 áætlaðar kr. 80,000,00, en reyndust kr. 197,346,43. Á tímabilinu 1908—9 áætlaðar kr. 120,000,00, en reyndust kr. 201,187,89.

Eg hefi bent á þetta til þess að sýna, að við getum ekki búist við að tekjuhallinn verði teljandi minni í reyndinni en hann er áætlaður, þar sem aðaltekjulindirnar eru komnar að hámarkinu. Það má gera ráð fyrir að tekjuhallinn verði um 420 þús. kr. Upp í það er ekki annað en ca. 65 þúsund kr. tekjur af frumvörpunum um erfðaskatt, aukatekjur og vitagjald, og ef til vill má gera ráð fyrir ca. 130 þús. kr. tekjum af tolllagafrv., ef það verður samþykt á þinginu. Mismunurinn verður þá um 225 þús. kr., fyrir utan fjárveitingarnar á fjáraukalögum.

Við verðum að vera við því búnir, að fjárlögin sýni þetta, þegar þau fara héðan úr deildinni, falli atkvæðin svipað því sem nefndin leggur til.

Þá álít eg rétt að minnast á það, hvernig þessum útgjöldum, ca. 3,200,00 kr., er skift niður. Það eru aðallega 5 greinar fjárlaganna, sem eiga að geta sýnt, hvernig stefna þingsins í fjármálum er, nfl. 12. 13., 14., 15. og 16. gr. Að vísu eru einnig háar upphæðir í öðrum greinum, en það eru mest lögákveðin gjöld.

Eg skal fyrst benda á, að öll útgjöldin á fjárlögunum voru:

1906—07 kr. 2,250,999,64

1908-09 — 2,848,642,67

1910-11 — 2,994,440,33

en verða 1912—13 ca. kr.3,200,000,00

Ef við gætum að, hvernig þessi hækkun útgjaldanna á síðastliðnum 6 árum og næsta fjárhagstímabili skiftist niður á einstakar greinar fjárlaganna, þá verður það á þessa leið:

12. gr. hækkar á þessum 4 fjárhagstímabilum úr kr. 240,000 í kr. 334 þús. með öðrum orðum hefir hækkað um tæp 50% og hefir hækkunin farið jafnt og þétt.

13. gr. var 1906—7 kr. 806,000. En þar er þess að gæta, að þá var greitt 300 þús. kr. tillag til byggingar landsímans. 1908—9 voru gjöld 13. gr. kr. 1,208,301, 1910—11 kr. 987,227, en á þessum fjárlögum, eftir því sem nefndin leggur til, kr. 1,034,300. Þessi grein fjárlaganna hefir hækkað stórum ár frá ári fram til fjárhagstímabilsins 1906—7, en síðan ekki teljandi, og jafnvel farið lækkandi nú upp á síðkastið. Þetta er athugavert, því að í þessari grein eru fjárv. til þýðingarmestu framfarafyrirtækja landsins, og ef dregið er úr útgjöldum þessarar greinar um stund, þá koma fyr eða síðar kröfur frá þjóðinni, sem ekki verður staðið á móti. Þess vegna álít eg það óheppilega fjármálastefnu, að draga úr útgjöldum þessarar greinar, því fremur sem þetta eru fyrirtæki, sem gefa töluverðar tekjur aftur, t.d. símar, vitar, póstgöngur o. fl. Eg býst við að eftirfarandi þing verði að hækka útgjöld 13. gr. til muna. En í þetta sinn hefir neðri deild ekki séð sér fært að fara hærra en þetta, rúmlega 1 miljón kr.

Þá er 14. gr.; hún hefir hækkað stórum stigum:

1906-07 kr. 307,126

1908-09 - 365,950

1910-11 - 502,004

Þar var mikil hækkun alt í einu, eftir gildandi fjárlögum, og hækkunin virðist ætla að halda áfram, því að í þessu fjárl.frv. verða gjöld 14. gr., eftir till. nefndarinnar, 577,000 kr., þegar frv. fer héðan úr deildinni. Þetta er hækkun, sem ekki virðist auðvelt að stemma stigu fyrir, þar sem hún heldur áfram, án tillits til flokkaskiftingar á þingi.

Sama er að segja um 15. gr. Þar voru útgjöldin:

1906-07 kr. 99,060

1908-09 - 157,140

1910—11 - 145,320

og 1912—13 má gera ráð fyrir - 163.340

Þá er 16. gr.:

1906-07 kr. 340,020

1908—09 - 336,920

1910—11 - 439,520

og 1912—13 nálægt...... - 440,000

Þar hafa því gjöldin stöðugt hækkað og má búast við, að því haldi áfram, þó að á þessu þingi hafi komið fram sú stefna að draga úr útgj. þessarar greinar.

Með þessu yfirliti vildi eg sýna hv. deild, að það virðist ómótstæðilegt lögmál, að gjöldin fari stöðugt hækkandi. Þó að dregið sé úr útgjöldum einnar gr. í eitt skifti, þá hækkar þeim mun meira annarstaðar, svo sparnaðarins gætir ekki, þegar alt er lagt saman. Við þessu er ekkert að gera, enda eru engin vandræði á ferðum fyrir því. En eitt er víst, að það verður fyrst og fremst að hafa það hugfast, að tekjurnar haldist í hendur við gjöldin. Þær hafa gert það hingað til og gera það ef til vill líka þetta yfirstandandi fjárhagstímabil. En það er áreiðanlega engin von um að þær hrökkvi til á næsta fjárhagstímabili, nema þá að einhver verulegur tekjuauki fáist.

Þá skal eg minnast á breytingartillögu nefndarinnar á þskj. 727.

Fyrst eru tvær breytt. við 8. gr. frv. Nefndinni þótti betur fara á að nefna dagsetningu lánanna. Fyrra lánið mun hafa verið tekið 18. desember 1908, eða að minsta kosti er stimpilgjaldið borgað þann dag. Hitt lánið er tekið 26. júlí 1909, en talið frá 1. s. m. Nefndin gerir ráð fyrir, að hv. deild fallist á þessar br.t.

Þá er 3. breytt. á þskj. 727 við 9. gr. frv., að í staðinn fyrir 5000—5000—10000 komi 4000—4000—8000 til Landsbankans fyrir að gegna landfógeta störfum. En þessa tillögu tekur nefndin aftur. Ástæðan er sú, að eftir að nefndin hafði gert þessa. br.t., átti gjaldk. landssjóðs tal við nefndina og sýndi henni fram á að þessi upphæð, 4000 kr. á ári, væri of lítil; þess vegna réð nefndin af að taka till. aftur.

Þá er 4. br.t. á sama þskj. Þar leggur nefndin til, að hækka laun yfirskoðunarmanna landsreikninganna. Þau hafa verið 400 kr. alt frá 1875; en það eru alt of lág laun, því að verkið er vitanlega mikið og fer alt af vaxandi. Auk þess vil eg benda á, að ef launin eru of lág, þá er hætt við að endurskoðunin verði ekki eins vandvirknislega af hendi leyst og þarf að vera, og verður ef til vill töluendurskoðun. Enn fremur má benda á, að það stefnir nú alt í þá átt, að láta yfirskoðunarmenn landsreikninganna endurskoða fleira en reikninga sjálfs landsjóðs, að láta þá einnig endurskoða ýmsar aukadeildir landssjóðsins, t. d. reikninga ræktunarsjóðsins, fiskiveiðasjóðs, byggingarsjóðs, o. fl. Enda er það fyllilega rétt, því að reikningar þessara sjóða varða landið ekki minna en aðalreikningar landssjóðs. En ef störfin eru aukin til muna, þá verður líka að auka launin

5. br.t. á sama þskj. er að eins orðabreyting. Orðalagið virðist ekki rétt á liðnum eins og hann er, þar stendur: „til aðstoðar löggæzlu .... og tolleftirlits“. Tollheimtan liggur undir sýslumann í Eyjafjarðarsýslu og hann hefir tolltekjurnar. Því þykir nefndinni betra að orða liðinn á þessa leið: til lögreglueftirlits um síldveiðitímann. Auðvitað nær lögreglueftirlit einnig til eftirlits á því, að tollsvik eigi sér ekki stað.

Þá er 6. brt., við 12. gr. 3., að sá liður falli burt. Nd. hefir sþ. 400 kr. styrk til hreppsnefndarinnar í Hólshreppi í Norður- Ísafj s., til þess að útvega lækni til að setjast að í Bolungavík, þó með því skilyrði, að lækninum verði greiddar 800 kr. á ári annarstaðar frá. Nefndin getur ekki fallist á þetta. Ísafjarðarlæknishérað var mjög stórt hérað áður, og þessvegna var skipaður aðstoðarlæknir á Ísafirði. Á síðasta þingi voru ennfr. teknir 4 hreppar af héraðinu og myndað nýtt hérað, Nauteyrarlæknishérað. En nefndinni sýnist alt of langt farið, ef nú á að setja 4. lækninn í þetta hérað. Nefndin vill því taka aðstoðarlækninn burt frá Ísafirði og setja hann í Bolungavík, en þó því að eins að hann fái 400 kr. þóknun á ári annarstaðar að, og býst nefndin við að héraðsbúar verði fúsir á að leggja til þá upphæð. Það er enginn vafi á því, að aðstoðarlæknirinn ætti fremur að sitja í Bolungavík en á Ísafirði við hlið héraðslæknisins. — Í sambandi við þessa tillögu nefndarinnar er 7. brt. að 3. liður 12. gr. frv. falli burt.

Þá er 8. brtill. við 12. gr. 6. Þar er það gert að skilyrði fyrir styrk til augnlæknis að hann hafi ókeypis klínik handa fátækum mönnum einu sinni í viku. Hinir sérfræði-læknarnir, sem styrks njóta, eiga aftur á móti að hafa ókeypis klínik að eins tvisvar í mánuði. Nefndin vill láta eitt yfir þá alla ganga, og því leggur hún til að orðin „hinn fyrstnefndi . . . síðarnefndur“ falli burt úr athugasemdinni. Aftur vill nefndin að allir þessir læknar hafi ókeypis klínik 3 sinnum á mánuði, og út á það gengur 9. br.till. Það má ekki hafa þessa klínikdaga of fáa, því að gætandi er að þeir eru jafnframt aðallærdómsdagar nemenda á læknaskólanum, í þessum lækningagreinum.

Þá er 10. br.till., að bæta við nýjum lið: styrk til að koma upp sjúkraskýlum. Þessi liður er á gildandi fjárlögum, en hefir einhverra hluta vegna fallið burt í frv. stjórnarinnar. En nefndin vill setja liðinn inn aftur. Tilgangurinn er sá, að landsjóður styðji að því, að sjúkraskýli komist smátt og smátt upp sem allra víðast. Og með því að veita 3000 kr. á ári með þessum skilyrðum, sem sett eru, má gera ráð fyrir að 2—3 sjúkraskýli verði bygð á hverju fjárhagstímabili, og gætu þá flestir læknar haft sjúkraskýli eftir svo sem 10—20 ár. En til þess að styrkurinn verði notaður, og með þeim skilyrðum, sem sett eru, má hann ómögulega vera lægri en þetta, nfl. ? af byggingarkostnaðinum. Hann var minni áður, en þá þótti naumast tilvinnandi að sækja um hann. Landlæknir skýrir frá, að það liggi fyrir 3 eða 4 beiðnir um styrk á næstu árum, og því verður ekki neitað, að bygging sjúkraskýla á læknasetrum er hið mesta nauðsynjamál og víða einasti vegurinn til þess að geta fengið almennilega lækna, og haldið þeim, því þeir vilja ógjarnan setjast að utan kauptúnanna nema þeir hafi sjúkraskýli.

Þá vil eg enn minnast á eitt atriði í 12. gr. frv.: heilsuhælið á Vífilsstöðum. Það kom beiðni til nefndarinnar, frá stjórn Heilsuhælisfélagsins, um að hækka ársstyrkinn upp í 25 þús. kr. En nefndin getur ekki fallist á að hækka þennan styrk frá því sem nd. hefir ákveðið. En svo kom ennfremur beiðni um að landsjóður ábyrgist 120 þús. kr. lán fyrir hælið. Félagið hefir hugsað sér að fá þetta lán í sparisjóðnum Bikuben, og hefir fengið ádrátt um að fá það, með ábyrgð landsjóðs, til 50 ára og með 4% vöxtum. Þetta eru góð kjör og nauðsynlegt fyrir hælið að geta notað sér það. Nefndin áleit þó ekki fært að taka þessa málaleitun til greina hér í deildinni. Það er of mikið í ráðist fyrir efri deild án þess að bera sig saman við neðri deild. En eg hygg, að nefndin mundi ekki setja sig á móti þessu, ef nd. verður því samþykk. Það er svo ástatt, að það má heita óhjákvæmilegt að gera eitthvað í þessu máli. Landsjóður hefir lánað hælinu 75 þús. kr. bráðabirgðalán. Þetta á því hælið að greiða aftur, en getur það ekki nema með því að fá lán, og getur ekki fengið lán með aðgengilegum kjörum, nema gegn ábyrgð landsjóðs Þingið er því bundið í báða skó. Þessi aðferð stjórnarinnar, að lána heimildarlaust 75 þús. kr. úr landsjóði, er aðfinningarverð; en auðvitað hefði hitt líka verið ilt, að láta byggingu hælisins stansa í miðju kafi vegna fjárskorts. — Eg hefi fengið í hendur efnahagsreikning félagsins og skal leyfa mér að lesa upp nokkra liði úr honum.

Tillög og gjafir hafa numið kr. 60,800

Vextir af peningum .... - 3,862.

Þetta er til samans 64½ þús. kr.

Auk þess hefir félagið fengið að gjöf 10 þús. kr. í einu lagi, sem ekki má snerta við, nema vöxtunum til ákveðins augnamiðs. — Annað fé til hælisins hefir verið tekið að láni, samtals kr. 248,747. Þar af 148,747 kr. í Bikuben og 100 þúsund hér, nfl. 75 þús. úr landsjóði og 25 þús. í íslenzkum bönkum.

Þessu fé hefir verið þannig varið:

Byggingarkostnaður . . . kr. 283,000.

Vextir - 8,290.

Reksturskostnaður til nýárs - 8,450.

Ýmisleg útgjöld .... - 7,792.

Alt til samans rúml. 307 þúsund kr.

Þá kem eg að brtill. við 13. gr.

1. br.till. frá nefndinni við þessa gr. fer fram á að hækka laun aðstoðarverkfræðingsins upp í 2700 kr. Landsverkfræðingurinn álítur að í þá stöðu muni vera torvelt að fá mann, með fullkominni verkfræðingsmentun, ef launin eru lægri, og því leggur nefndin eindregið með því að þessi brtill. verði samþykt. Maður sá er nú gegnir starfa þessum hefir lofað að vera áfram, ef hann fær 2700 kr., annars ekki.

Nefndin sér sér ekki fært að hækka útgjöld til vega mikið á þessu þingi, en þó verður hún að leggja til að veittar verði 20 þúsund krónur til Borgarfjarðar-brautarinnar; sérstaklega af því, að verkfræðingur landsins hefir skýrt frá, að ef þessi upphæð sé veitt, muni ekki vanta nema 10—15000 kr. til að fullgera brautina. En til þess að fá þetta fé, hefir nefndin meðal annars lagt það til, að ekki verði byrjað á Skagafjarðarbautinni fyr en síðara ár fjárhagstímabilsins, enda er vegurinn upp frá Sauðárkróki góður og hestahaldið mjög ódýrt í Skagafirði.

Þá vil eg minnast á Reykjadalsbrautina. Hún er nú komin því sem næst miðja vega. Og má vafalaust sýna fram á, að hún verði töluvert ódýrari en áætlað er, líklega að hún kosti ekki yfir 85 þúsund krónur. En til hennar verður búið að verja 50 þús kr. í árslokin 1911, og vill nefndin veita til hennar 15,000 kr. fyrra árið, en 5,000 kr. síðara árið. Verði brautin ekki dýrari en 80—85 þús. kr., vantar ekki til að fullgera hana nema 10 — 15 þús. kr. og má ef til vill veita það fé á fjáraukalögum fyrir árið 1913, svo verkinu verði þá lokið og mundi það verða Suður-þingeyingum hið mesta gleðiefni. Enda er braut þessi mikið nauðsynjamál, og hygg eg að varla hafi nokkur akvegarkafli verið eins mikið notaður þegar í byrjun og þessi brautarstúfur. Enn fremur vill nefndin veita fé til brúargerðar á Öxará við Þingvöll, og hækkar því fjárveitinguna til viðhalds akbrauta um 1500 kr. fyrra árið, en steinsteypubrú á ána kostar 1500 kr. Aftur á móti vill nefndin lækka fjárveitinguna til brúargerðar á Haffjarðará um 2000 kr., því landsverkfræðingurinn hefir upplýst, að brú á ána muni ekki kosta yfir 10000 kr. Þá leggur nefndin til, að fella burt fjárveitingarnar til þjóðvega í

Austur-Skaftafellssýslu og milli Hjarðarholts og Ljárskóga. Lítum vér svo á, að engin ástæða sé til að taka þessa vegakafla fram yfir aðra þjóðvegi á landinu. Þá kem eg að framlögum úr landssjóði til sýsluvega.

Síðasta þing veitti til Hvammstangavegarins 5000 kr., gegn jafnmiklu tillagi frá sýslunni. Til þess að koma veg þessum í samband við þjóðveginn vantar 2,300 kr. En nefndin álítur rangt að veita fé til sýsluvega, nema því að eins, að sýslurnar leggi á móti. Og þess vegna vill nefndin ekki veita meira en 1000 kr. og á sú upphæð að nægja, ef sýslan leggur jafnmikið fé fram, því af fjárveitingu síðasta þings eru óeyddar 3—400. Næsta brtill. er um Keflavíkurveginn, að færa fjárveitinguna til hans niður, úr 7500 kr. í 5000 kr. hvort árið. Vegagerð þessari er nú svo komið, að búið er að leggja rúmar 26 rastir, en eftir eru 14 rastir. Af fjárveitingunni fyrir yfirstandandi fjárhagstímabil er óunnið fyrir 15000 kr. Verði nú veittar 15000 kr., er það sama sem að til þessara 14 rasta verði veittar samtals 45,000 kr. eða fullar 3,200 kr. fyrir hverja röst. Er það óþarflega mikið og eru akbrautirnar varla svo dýrar, og þessi vegur þó 1 alin mjórri 20 þús. kr. fjárveiting hlýtur að nægja til að lúka við veginn alla leið til Keflavíkur.

Þá er brtill. um að í staðinn fyrir til gufuskipafél „Thore“ komi til gufuskipaferða. Eins og kunnugt er, eru skiftar skoðanir um það, hvort „Thore“-samningurinn sé gildur eða ekki, en hvað sem því líður, þá telur nefndin heppilegast að fjárveitingin sé ekki bundin við nafn. Það gefur stjórn landsins frjálsari hendur, enda er auðsætt, að hugsast getur að einhverjir þeir atburðir komi fyrir, að samningurinn hætti að gilda og á stjórnin þá að hafa heimild til að semja við einhvern annan um ferðirnar.

Þá leggur nefndin til, að hækkaður sé styrkur Faxaflóabótsins úr 12 upp í 14 þúsund.

Nefndin hefir haft reikning félagsins með höndum og sýnir hann, að útgjöldin hafa orðið 39 þúsundir, en tekjurnar, fyrir utan landssjóðsstyrkinn, að eins 28 þúsund, og er því augljóst, að félagið hlýtur að vera í kröggum, því innborgað hlutafé er 28,000 kr., en skuldirnar um 48 þús. Hinsvegar er báturinn bráðnauðsynlegur fyrir póstflutningana, og spara póstsjóði ekki alllítið fé árlega.

Þá leggur nefndin til, að fjárveitingin til starfrækslu loftskeytasambands til Vestmannaeyja falli niður, og er það sjálfsögð afleiðing af meðferð háttvirtrar deildar á tilsverandi lið í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árin 1910 og 1911. Laun vitavarðarins við Elliðaeyjavitann leggur nefndin til að lækka niður í 400 kr., eins og þau voru í frv. stjórnarinnar. Hann hefir haft 200 kr. og virðist þessi hækkun nægileg. Fyrir lækkuninni á launum vitavarðarins á Siglunesi var gerð grein við umræðumar um fjáraukalögin, og er því óþarft að tala um það hér. En aðalbrt. nefndarinnar við þennan kafla 13. gr., er að fella burt vitann á Bjargtöngum, en veita í þess stað fé til að reisa vita í Flatey á Skjálfanda. Bjargtangavitinn er algerlega óundirbúinn og allsendis óvíst að umsjónarmaður vitanna álíti þörf á að hafa þar stóran vita, þegar hann rannsakar það mál. Eins líklegt, að þar sé nóg að hafa litla lukt eins og t. d. á Langanesi. Um Flateyjarvitann hefir verið gerð áætlun og var það eini vitinn, sem stjórnin tók upp í frumvarpið, en svo feldi nd. hann í burtu. Með þessum vita mælir það sérstaklega, að hann er innsiglingarviti á Eyjafjörð og að með honum og vitunum á Skaga og Kálfshamri er fengið sæmilega fullkomið vitakerfi fyrir siglingar fyrir öllu Norðurlandi, frá Langanesi vestur undir Horn.

Þá kemur 14. gr. Nefndin ræður hinni háttvirtu deild til að fella athugasemdina við A b 2, um húsaleigustyrk til presta í kauptúnum. Það er algerlega gagnstætt tilgangi prestlaunalaganna, að veita þennan húsaleigustyrk. Lögin ætlast til að laun þau, sem þar eru ákveðin, séu sæmilega há, en þetta gæti dregið slæman dilk á eftir sér, ef samþykt væri.

Þá leggur nefndin til, að athugasemdin við A b 4 falli einnig burtu, en hún er um prestmötu á Grund í Eyjafirði, er greiðist nú prestinum í Grundarþingum og Akureyrarpresti, en með athugasemdinni er hún lögð til Grundarkirkju. Það virðist óviðeigandi að gera hér undantekningu, og það þó kirkja þessi sé hin veglegasta. Þá kem eg að aðalbreytingartillögunni við þessa grein og það er viðvíkjandi háskólanum. Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að fjárframlag til háskólans sé veitt hér í samræmi við fjáraukalögin, þar sem ákveðið er að skólinn skuli verða settur á stofn 17. júní í ár og taka til starfa 1. október. Af þessu leiðir hækkun um 30,620 krónur á fjárhagstímabilinu og er aðalhækkunin fólgin í því, að laun til kennaranna hækka frá því sem nú er greitt til hinna þriggja hærri skóla um 13800 kr. á ári, eða 27600 kr. á fjárhagstímabilinu. Er það sumpart launahækkun, en sumpart laun hinna nýju kennara. Þá er lagt til að námsstyrkur og húsaleigustyrkur sé hækkaður um 1280 kr. á ári eða um 2560 kr. á fjárhagstímabilinu. Enn fremur er lagt til, að styrkur til útgáfu kenslubóka sé hækkaður um 2000 krónur á fjárhagstímabilinu, eða um 1000 krónur á ári. Svo er ætlast til að styrkur til bókakaupa og ýmislegs hækki upp í 2009 krónur á ári, og er þá hækkunin alls 33,860 kr. Aftur sparast 3240 krónur í húsaleigu o. fl. við það að skólarnir færast saman, og verður þá aukinn kostnaður að öllu samantöldu 30,620 kr

Þess skal getið, að nefndin er öll sammála um það, að hækka beri námsstyrkinn og styrk til bókaútgáfu. Aftur á móti er nefndin ekki sammála, hvort háskólinn skuli taka til starfa þegar næsta haust, en það atriði verður væntanlega nánar skýrt undir umræðum málsins. Í athugasemdinni við þennan lið er það tekið fram, að húsaleigustyrk og námsstyrk megi að eins veita reglusömum og efnilegum nemendum, og fari húsaleigustyrkurinn ekki fram úr 80 kr. og mesti námsstyrkur sé 280 kr. Getur enginn nemandi þannig fengið meira en 360 kr. styrk alls, eða 40 kr. fyrir hvern námsmánuð.

Þá er breytingartillaga við B IV, að nokkur orð athugasemdarinnar falli burt. Þetta er að eins orðabreyting, sem leiðir af því sem að framan er sett.

Þá eru 35. og 36. breytingartillögurnar, þar sem farið er fram á að hækka liðinn B V a um 400 krónur hvort árið, og er sú hækkun ætluð til persónulegrar launaviðbótar handa 3. kennara Akureyrarskóla. Laun hans eru lág og maðurinn er roskinn og þessarar launahækkunar maklegur.

Breytingartillaga 27. er að eins orðabreyting.

Þá er 38. breytingartillagan um kvennaskólann í Reykjavík. Nefndin viðurkennir að kvennaskólann í Reykjavík beri að styrkja, þar sem hann er í blóma og til mikils gagns fyrir Reykjavík og jafnvel alt landið. En þar sem þetta er privatskóli, virðist nefndinni rétt, að krafist sé fjárframlags annarstaðar að, til móts við landssjóðstyrkinn, og væri ekki illa viðeigandi, að skólagjalds væri krafist af námsmeyjunum, einkum hinum efnaðri. En þó ekki verði gerð svo mikil breyting, þá telur nefndin, að ekki sé farandi fram á minna tillag en 1500 kr. annarstaðar frá.

Þá er Blönduóss skólinn. Nefndin leggur til að liðurinn B VIII a 3 falli niður og er það í samræmi við, að ekki var veitt til byggingar þessa skóla. Að öðru leyti hefir nefndin enga afstöðu tekið til þessa máls.

Þá hefir nefndin orðið að gera redaktionsbreytingu á 14. gr. B. VIII, þar sem svo illa hefir verið gengið frá þessum lið, að hann í er lítt skiljanlegur. Breytingin er í því fólgin, að koma betra skipulagi á niðurröðun undirliðanna.

Nefndin hefir orðið ásátt um að veita til unglingaskóla Ásgríms Magnússonar í Reykjavík alt að 500 kr. hvort árið, þar sem hún hefir fengið upplýsingar um, að hann sé vel útbúinn, og til þess, að hann njóti jafnréttis við slíka skóla, er einstakir menn stofna utan kaupstaðanna.

Þá er 46. breytingartillaga, þar sem nefndin fer fram á, að lækkað sé tillag til Flensborgarskólans úr 7000 krónum í 6000. Nefndin lítur svo á, að þetta sé ríflegt tillag til þess skóla, sem ekki er landsskóli. Sá styrkur hefir verið altof hár í samanburði við styrk til annara skóla. Eftir síðasta reikningi þessa skóla hafa rúmar 5000 krónur gengið til kenslu og ýmsra útgjalda við skólahaldið, en 2000 krónur hafa gengið til vaxta og afborgana af skuldum skólans. Skólinn ætti því vel að geta komist af með 6000 króna styrk.

Ef Flensborgarskólinn er borinn saman við aðra skóla, sem honum eru líkastir, svo sem kvennaskólana og unglingaskóla, þá er þar farið öllu ósparara með fé, og laun við hann eru tiltölulega há.

Þessi skóli er líka að verða meir og meir skóli fyrir Hafnarfjörð og nærliggjandi sveitir, og því ætti að koma styrkur frá þeim sveitum, til móts við landssjóðsstyrkinn, enda er skólinn upphaflega gefinn því héraði.

Ef 6000 krónur eru veittar til þessa skóla, þá má telja það mjög ríflegan styrk.

Mér hefir verið næst skapi að gera það að skilyrði, að skólinn væri styrktur annarstaðar að. En að sjálfsögðu verða Hafnfirðingar og nærsveitirnar að hlaupa undir bagga hér, ef skólanum nægja ekki þessar 6000 krónur.

Fram að 1909 hafði þessi skóli ekki meira tillag frá alþingi en 4000—4500 krónur, og komst af með það.

Þá hefir nefndin fallist á, að færa upp styrkinn til sundkenslu utan Reykjavíkur um 200 krónur á ári og felst hin háttvirta deild væntanlega á þá breytingu.

Loks er styrkur til leikfimisnáms handa sveitastúlkum, og leggur nefndin til, að sá styrkur sé bundinn við nafn ungfrú Ingibjargar Guðbrandsdóttur.

Verði breytingartillögur nefndarinnar við þessa grein samþyktar, þá aukast gjöldin um 21,800 krónur.

Eg hefi þá farið nokkrum orðum um helztu breytingartillögur nefndarinnar, og vil þá með örfáum orðum athuga þær breytingartillögur, sem einstakir menn hafa borið fram, og er þá fyrst breytingartillagan á þingskjali 771 við 12. grein um 700 kr. launaviðbót til héraðslæknisins á Hólmavík, til þess að ferðast um sitt eigið hérað. Nefndin álítur, að ekki geti komið til mála að veita honum launaviðbót þá, sem hér er farið fram á. Annað mál væri að veita lítinn lækningastyrk í fjárlögunum til fjarlægustu hreppanna, svo sem Öræfingum var veitt.

Eg vildi þá gera að skilyrði fyrir slíkri fjárveitingu, að hið nýstofnaða Reykjarfjarðarhérað yrði lagt niður, og mundi þá með ánægju gefa styrknum atkvæði mitt.

Þá er breytingartill. á þingskjali 775, um að styrkurinn til Önnu Magnúsdóttur verði hækkaður um 500 krónur. Nefndin hefir fallist á, að láta þennan styrk halda sér óbreyttum, en vill á hinn bóginn ekki hækka hann. Telur annars varhugavert, að styrkja sjúklinga á erlendum sjúkrahúsum, þegar þeir eru sendir af einstökum mönnum, og eru í nefndarálitinu tekin fram skilyrði fyrir þessari fjárveitingu.

Þá er breytingartill. á þingskjali 780, frá háttvirtum þingmanni Akureyrarkaupstaðar. Þessa breytingartillögu getur nefndin ekki fallist á. Hún kemur í beina mótsögn við það, sem nefndin hefir haldið fram, sem sé, að nefna ekki Thorefélagssamninginn í þessum lið. Enda lítur meiri hluti nefndarinnar svo á, að Thorefélagið eigi ekki að fá sérstaka borgun fyrir flutning á pósti.

Breytingartillögunni á þingskjali 770, frá háttv. þingmanni Strandamanna, er nefndin algerlega mótfallin, og sér enga ástæðu til, að nú sé verið að leggja sérstaklega fé til þjóðvegar þess, sem þar er um að ræða. Á fjárlögunum 1908—1909 var veitt fé til þessa vegar, 3000 kr. fyrra árið.

Annars væri heldur þörf á, að hækka tillag til þjóðvega alment, og gæti þá stjórnarráðið varið því, þar sem mest væri þörfin.

Á þingskjali 774 er breytingartillaga frá háttvirtum þingmanni Vestur-Ísfirðinga og er þar farið fram á, að veitt sé til talsíma frá Ísafirði að Suðureyri í Súgandafirði 80% af öllum kostnaði við hann, í stað 66%, er farið var fram á, er þetta var til umræðu við meðferð fjáraukalaganna. Síðan hafa tveir atburðir orðið, sem áhrif hafa á þetta mál. Fyrst er það, að búið er að fella Vestmannaeyjasímann, sem á að ganga á undan þessum síma, og er miklu arðvænlegri, og í öðru lagi liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um lagningu síma. Það er nú í neðri deild, en vænta má, að það fái góðan byr gegnum þingið. Nefndin leggur því á móti þessari breytingartillögu.

Breytingartillaga á þingskjali 756, frá háttvirtum þingmanni Skagfirðinga, fer fram á, að eftir tölulið A b 5 komi nýr liður: Til greiðslu álags á Viðvíkurkirkju fyrra árið 400 kr. Nefndina vantar allar upplýsingar um þetta mál, og er því ekkert hægt um það að segja að svo komnu.

Þá er breytingartillaga á þingskjali 772, frá háttvirtum þingmanni Vestur-Ísfirðingar þess efnis að lækkað sé tillag til unglingaskóla utan kaupstaða úr 8000 krónum í 7000 krónur, en veita svo unglingaskólanum á Núpi í Dýrafirði 1200 hvort árið, á nýjum lið B VIII b 7. Nefndin getur alls ekki fallist á þessar breytingar, og vill aðvara deildina um að taka hér einn unglingaskóla fram fyrir annan. Hér hefir í einu lagi verið veitt til allra unglingaskóla, og er sjálfsagt að þeir keppi um þann styrk. Núpsskóli á engin sérréttindi að fá fram yfir aðra skóla, og væri mjög óréttlátt, að taka hann út úr. Enda hefir þessi skóli svo ötulan og góðan forstöðumann, að telja má víst, að hann fái allríflegan styrk af þessum 8000 krónum, sem veittar eru til unglingaskóla.

Loks er á þingskjali 779 breytingartillaga, um ferðastyrk handa Birni Jakobssyni leikfimiskennara, til þess að sækja alþjóðamót um líkamsuppeldi, 300 krónur fyrra árið. Þessari málaleitun fylgja beztu meðmæli forstöðumanns fræðslumálanna. Maður þessi er kennari við kennaraskólann hér og álitinn mjög efnilegur. Leggur nefndin með að þessi breytingartillaga verði samþykt.

Eg skal svo ekki segja meira að sinni er enda orðinn nokkuð langorður.