11.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

164. mál, gufuskipaferðir

Flutningsmaður Sigurður Stefánsson:

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hve mjög mönnum, síðan nýi Thorefélagssamningurinn varð heyrum kunnur, hafa brugðist þær góðu vonir, er þeir höfðu gert sér um, að nú yrðu ráðnar bætur á gufuskipaferðum frá Kaupmannahöfn til Íslands og á gufuskipaferðum umhverfis strendur landsins. Það þarf ekki að reifa þetta mál lengi. Hér um bil alstaðar á landinu er óánægjan megn, alstaðar að heyrast umkvartanir um, hve óheppilega sé fyrirkomið gufuskipaferðum og samgöngum vorum á sjó. Menn bjuggust við, að nú yrði þeim eitthvað breytt til bóta frá því sem áður var, er Thorefélagið naut einskis styrks af landssjóði. En þá var, eins og kunnugt er, skipaferðum Túliníusar fundið það til foráttu, að skip hans eltu skip Sameinaða gufuskipafélagsins, svo að 2 skip komu í einu eða hvorn daginn á eftir öðrum, en svo liðu mánuðir, að jafnvel aðalstaðirnir fengu engar gufuskipaferðir, t. d. Akureyri og Ísafjörður. Menn vonuðust eftir, að þetta mundi fara batnandi, er samningar höfðu tekist með landsstjórninni og Thorefélaginu um, að það héldi uppi strandferðum við Ísland. En þetta hefir farið öðruvísi. Það hefir orðið sama raunin á og meðan Thorefélagið naut ekki neins styrks úr landssjóði. Í staðinn fyrir það að menn vonuðust eftir, að ferðir yrðu farnar 14. hvern dag frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur, er sömu kássuferðunum nú haldið óbreyttum sem áður.

(Lárus H. Bjarnason: Heyr!)

Mér er sérstaklega kunnugt um, að þessu er þannig háttað í mínu eigin kjördæmi, Ísafjarðarkaupstað, sem er með stærstu kaupstöðum landsins. Þar er mjög kvartað yfir því, að skipin elti hvert annað, og svo líður langur tími svo, að ekkert skip kemur. Mér er það að vísu ljóst, að sérstakleg vandkvæði eru á, að fá þessu breytt, þar sem hér er um fastbundna samninga að ræða. En þingið má ekki horfa í það, þótt erfitt sé að laga þetta. Ef það þegir við kvörtunum þeim, er fram hafa komið í þessu efni, þá er engin von leiðréttingar. Eg ætlast ekki til þess, að samdar verði nákvæmar áætlanir um, hvernig og hve oft skipin koma á hverja vík og vog, heldur hitt, að málið verði athugað „í stórum dráttum“ og séð verði ráð til þess afstýra, að það komi fyrir, að tveir helztu kaupstaðir landsins, Akureyri og Ísafjörður, verði t. d. ferðalausir frá því fyrst í desember til þess seinast í janúar. — Eg skal geta þess, að það er ekki kvartað yfir því, að ferðirnar séu í sjálfu sér ekki nógu margar, heldur hinu, hve hörmulega þeim er fyrirkomið.

Það er nú tilgangur okkar með þessari tillögu, að sjá um, að íhugað verði, hvernig koma megi samgöngum fyrir á haganlegri hátt en hingað til, og stjórnin fái vitneskju um, að mikil óánægja sé með samninga hennar um gufuskipaferðir vorar og skorað verði á hana að laga þá. — Að síðustu vona eg. að deildin sé oss flutningsmönnum samdóma um þessa tillögu og kjósi 5 manna nefnd til að íhuga málið.