11.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

73. mál, viðkomustaðir strandferðaskipanna

Lárus H. Bjarnason:

Eg er hv. 4. kgk. þm. samdóma um það, að ekki sé rétt að ónáða þingið með svona smámálum. Þau eiga að fara umboðsleiðina til landsstjórnarinnar. Þá var ólíka mikilsverðari tillagan, sem hæstv. forseti neitaði að taka á dagskrá í dag, till. um innsetning gæzlustjórans. En eg er hv. 4. kgk. þm. algerlega ósamdóma um, að orðalagið á þeirri rökstuddu dagskrá, er hann óskaði borna upp út af síðustu tillögu á undan, hafi verið rétt. Hann sagði að sér væri alls ókunnugt, hvort tillagan væri á nokkrum rökum bygð, en í dagskránni treystir hann þó landstjórninni til að taka hana „til greina“. Það er dálítið ósamræmi í því. Nú vil eg leyfa mér að bera fram aðra betri dagskrá í þessu máli, þar sem aðeins er farið fram á að stjórnin taki tillögu þá, er hér liggur fyrir „til athugunar“.

Eg hefði hugsað mér að koma með breyt. till. í þessa átt við dagskrá h. 4. kgk., en það fórst fyrir. Í rauninni munar engu á þessu tvennu, því að hver góð og samvizkusöm stjórn — og nú er til allrar hamingju von á góðri, eða að minsta kosti betri stjórn en verið hefir — tekur auðvitað slíkar tillögur til athugunar og þá til greina, ef henni sýnast þær sanngjarnar, hvernig sem orðalagið er. En orðalagið á minni tillögu er viðkunnanlegra. Eg skal með leyfi hæstv. forseta lesa hana upp:

„Í því trausti að landstjórnin taki tillögu þessa til athugunar, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“. —

Hin rökstudda dagskrá var samþ. með 8 samhlj atkv.