25.04.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

152. mál, guðsþakkafé

Augúst Flygenring:

Eg veit ekki, hver árangur kynni að verða af þessari tillögu, þó hún yrði samþykt; býst við, að hann yrði heldur rýr. Það er heldur ekki ljóst, hve víðtækt á að taka þetta. Máske flutningsmaðurinn hafi orðið svo hrifinn af því að sjá æfisögu Jóns rektors Thorkelin og rannsóknina á meðferð þess sjóðs, sem við hann er kendur, að hann þessvegna telji skyldu sína að útvega meira af líku tægi.

Eg vona þó að flestum fyndist heldur fjarri tilganginum með guðsþakkafé að verja því til útgáfu bóka af líku tægi og þeirrar sem nýskeð er komin út um þennan sjóð og gefanda hans. Þar sem varið hefir verið nær 5 þúsundum króna af ekki meira en 70 þúsundum, sem sjóðurinn er, til þess að hrúga upp alskonar bréfarusli, sálmarusli, og jafnvel prófsvottorðum ólesandi barna, hér út um nes og upp í sveit, — sem auðvitað enginn les nema einstöku historíugrúskarar. Það er ekki til þess að heiðra gefandann að gefa út slík ósköp.

Eg leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstvirts ráðherra — fyrst hann er hér staddur, — eftir hvaða heimild að alt þetta rusl hefir verið gefið út, og til þess varið offjár af sjóði, sem ætlaður er til mentunar snauðum börnum.

Í formálanum stendur, að Jens prófastur Pálsson hafi stutt þetta mál rækilega, en það mun þó aldrei hafa verið ásetningur þessa heiðursmanns að kasta í þessa ruslakistu sem svarar 20 barna árlegu skólagjaldi um aldur og ævi.

Eg vona, að það sé ekki tilgangurinn með tillögu þeirri sem hér liggur fyrir, að halda áfram á líkan hátt og hér hefir verið byrjað og fá meira inn á bókamarkaðinn af slíku góðgæti, en sé annars ekki að tillagan geri neitt gagn og mun eg því greiða atkvæði á móti henni.