31.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

116. mál, bæjarfógetaembættið á Akureyri og sýslumannsembættið í Eyjafirði

Sigurður Hjörleifsson:

Við flutningsmenn þessarar tillögu, eg og háttv. 6. kngk. þm., höfum minst á þetta mál við báða þingmenn Eyfirðinga í neðri deild, og hefir okkur skilist svo, að þeir væru málinu hlyntir. Það hefir verið mikið umtal um það í héraðinu, á Akureyri og í Eyjafirði, að það bæri nauðsyn til að breyta þessari embættaskipun. Og það er engin furða þó að Akureyrarbúar hafi sérstaklega fundið til þessarar nauðsynjar, því að störfin hafa vaxið mjög mikið undanfarin ár. Hve mikið þau hafa vaxið, get eg ekki sagt, því að um það hefi eg ekki ábyggilegar skýrslur, en þau hafa áreiðanlega vaxið mjög mikið, bæði í stjórn bæjarins og sjálfrar sýslunnar. Nú er svo komið, að margir álíta ókleift fyrir einn mann að þjóna embættinu, nema þá með aðstoð löglærðs manns. Nú eru deildar meiningar um, hvað eigi að gera til þess að bæta úr þessu. Akureyringar vilja helzt fá sérstakan bæjarfógeta, sem um leið hefði borgarstjórastöðu, sem nú er farið að kalla svo. Og eg get hugsað, að þá þætti vel tilvinnandi að bæjarfélagið greiddi nokkurn hluta af launum þessa embættismanns. Það sem vakir fyrir þessum mönnum er, að fá embættinu, eins og það er nú, skift í tvö embætti, bæjarfógetaembætti og sýslumannsembætti í Eyjafjarðarsýslu. En fyrir öðrum vakir aftur á móti að brýna nauðsyn bæri til að skipa sérstakan sýslumann, sem hefði aðsetur á Siglufirði. Og þeir hafa mikið til síns máls. Það er orðin venja að bera saman, hve mikið hver hluti landsins leggi í landssjóð. Þar eru Vestmannaeyjar einna hæstar tiltölulega, þær leggja kringum 40 þús. kr. En Siglufjörður leggur þó miklu meira í landssjóð eða árlega kringum 60—70 þús. kr. Nú er opinbert leyndarmál að tollsvik eru þar afartíð. Þar mun vera selt til muna af vínföngum, kaffi, sykri o. s. frv., sem flutt er inn tolllaust. Af þessu stafar vitanlega fjárhagslegt tjón fyrir landssjóð, ef mikil brögð eru að þessu. Og það mun vera óhætt að segja, að það sé orðinn talsvert almennur grunur á að tollsvik eigi sér stað. Til þess bendir meðal annars, að fjárlaganefnd neðri deildar hefir nú tekið tillit til þessa og gerir ráð fyrir, að sá maður, sem verður skipaður til lögreglueftirlits á Siglufirði, hafi jafnframt tollheimtu á hendi. Það stafar vitanlega af því, að fjárlaganefndinni hefir borist vitneskja um, hvernig ástandið er. — En svo er ekki nóg með það að tollsviknar vörur séu fluttar inn. Hitt er ennþá meira um vert, að þar sem sýslumaður situr á Akureyri önnum kafinn, þá er mikil hætta á því að eitthvað missist af útflutningsgjaldi á Siglufirði. Það þarf ekki meir en að eitt síldarskip sleppi frá Siglufirði án þess að greiða útflutningsgjald af síldarfarmi, þá getur það numið 1000 kr. tjóni fyrir landssjóð. Af þessu er auðséð, að hér er um brýna þörf að ræða, bæði fyrir héraðið og vegna hagsmuna landssjóðs. Ef embættinu væri skift í bæjarfógetaembætti og sýslumannsembætti, gæti vel komið til tals að gera sýslumanni að skyldu að búa á Siglufirði nokkurn hluta ársins. En þetta er alt óákveðið og ýmsar skoðanir um það, hvernig hentugast væri að bæta úr þessum vandræðum, og skal eg ekki fella um þetta neinn ákveðinn dóm, hvernig hentast væri úr að bæta. Þess vegna þótti oss rétt, að beina þessu máli til stjórnarinnar. Það hefir að vísu verið farið fram á þetta áður af Verzlunarmannafélaginu á Akureyri á síðastliðnum vetri. En sú áskorun kom svo seint til stjórnarráðsins, að það gat ekki tekið hana til greina. Til þess nú að hreyfa þessu máli hefi eg gjörst flutningsmaður, ásamt öðrum háttv. þingdeildarmanni, að þingsályktunartillögu þessari, sem hér liggur fyrir, og sem eg vil mælast til að hin háttv. deild samþykki.